Bandaríkin beita Rússa refsiaðgerðum

Alexei Navalní.
Alexei Navalní. AFP

Bandaríkin hafa tilkynnt að refsiaðgerðum verði beitt gegn Rússum fyrir að hafa eitrað fyrir rúss­neska stjórnarandstæðingnum Alexei Navalní í fyrra, að því er segir á vef BBC.

Refsiaðgerðirnar koma til með að beinast gegn sjö háttsettum rússneskum embættismönnum og 14 aðilum sem vinna að efnaframleiðslu. 

Bandarískir embættismenn sögðu leyniþjónustu Bandaríkjanna hafa komist að þeirri niðurstöðu að rússneska ríkisstjórnin stæði á bak við nærri banvæna árás á Navalní með taugaeitri en Navalní hefur verið mjög gagnrýninn á Vladimir Pútín Rússlandsforseta. 

Stjórnvöld í Rússlandi neita að hafa eitrað fyrir Navalní og eru ósammála þeirri niðurstöðu sérfræðinga að taugaeitrið novichok hafi verið notað, en novichok hefur verið skilgreint sem efnavopn. 

Refsiaðgerðirnar eru þær fyrstu sem beitt hefur verið af stjórn Joes Bidens, forseta Bandaríkjanna, en Biden hefur tekið harðari afstöðu en forveri hans Donald Trump gagnvart Pútín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert