Danmörk og Austurríki munu „ekki reiða sig á Evrópusambandið í framtíðinni“ þegar kemur að bóluefnamálum að sögn Sebastian Kurz, kanslara Austurríkis. Forsætisráðherra Danmerkur, Mette Frederiksen, fer til Ísraels á fimmtudag ásamt Kurz. Þar stendur til að leiðtogarnir ræði við Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, um samstarf í bóluefnamálum.
Ákvörðun danskra og austurrískra yfirvalda mun vera talsvert högg fyrir framtíð bóluefnasamtarfs Evrópusambandsins að því er fram kemur í frétt Telegraph. Bólusetningar í ríkjum Evrópusambandsins og öðrum samstarfsríkjum, meðal annars á Íslandi, hafa gengið mun hægar en raunin er í til dæmis Bretlandi og Bandaríkjunum. Bólusetningar hafa gengið langbest í Ísrael.
Kurz sagði við dagblaðið Bild í dag að Evrópska lyfjastofnunin (EMA) hafi verið of lengi að samþykkja bóluefni.
„Við verðum þess vegna að búa okkur undir frekari afbrigði veirunnar og við ættum ekki að reiða okkur áfram á ESB þegar kemur að framleiðslu annarrar kynslóðar bóluefna,“ sagði Kurz.
Frederiksen sagði í dag að Danmörk hafi þegar boðið í afgangsbirgðir af því bóluefni sem Ísrael hefur tryggt sér. Fram kemur í frétt Telegraph að ákvörðunin beri frekari merki þess að trú á bóluefnasamstarfi ESB fari dvínandi.
Diplómati hjá Evrópusambandinu segir við Telegraph að samstarfinu hafi verið komið á af ótta við það að minni þjóðir myndu missa af bóluefna-lestinni. „Að því sögðu, ef minni ungar eru farnir að yfirgefa hreiðrið vakna spurningar um það af hverju við erum í samstarfi yfirhöfuð,“ sagði diplómatinn, sem er ónafngreindur í fréttinni.
„Þú getur ekki haft nógu mörg bóluefni sem virka gegn öllum þessum afbrigðum. Við ættum að óska þeim góðs gengis – hugsa ég,“ sagði annar diplómati.
Yfirvöld í Póllandi, Slóvakíu, Ungverjalandi og Tékklandi hafa öll gert ráðstafanir til að tryggja sér bóluefni utan Evrópusambandsins. Þá hefur Þýskaland tryggt sér 30 milljónir skammta af bóluefni Pfizer auk þess sem svæðisbundin yfirvöld í Frakklandi hafa reynt að fá umframbóluefni eftir öðrum leiðum.