Sex bækur eftir barnabókahöfundinn Dr. Seuss verða ekki lengur gefnar út vegna myndskreytinga sem þykja sýna kynþáttafordóma.
Bækurnar sem um ræðir eru: If I Ran the Zoo, Scrambled Eggs Super, McElligot's Pool, On Beyond Zebra!, And To Think That I Saw It On Mulberry Street og The Cat's Quizzer.
„Þessar bækur mála mynd af fólki sem er meiðandi og röng,“ segir í yfirlýsingu frá félaginu sem heldur utan um arfleifð Dr. Seuss, Dr. Seuss Enterprises.
Bækur Dr. Seuss, sem hét réttu nafni Thedor Seuss Geisel, hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál og eru gefnar út í yfir 100 löndum, meðal annars í blindraletri. Þá hafa bækurnar verið gerðar að geysivinsælum kvikmyndum, meðal annars Trölli sem stal jólunum með Jim Carrey í aðalhlutverki og teiknimyndinni Lorax.
Þrátt fyrir vinsældir bókanna hafa þær á síðustu árum verið gagnrýndar fyrir lýsingar á sögupersónum sem ekki eru hvítar á hörund. Í bókinni And To Think That I Saw It on Mulberry Street, er persóna sem á að vera kínversk m.a. teiknuð með tvær línur fyrir augu, haldandi á prjónum og skál af hrísgrjónum og klædd skóm í japönskum stíl.
Í bókinni If I Ran the Zoo eru tveir afrískir karlmenn teiknaðir berir að ofan, skólausir og í pilsum úr stráum.