Óttast fjórðu bylgjuna

Kórónuveirusmitum fer fjölgandi í Bandaríkjunum að nýju og óttast yfirvöld …
Kórónuveirusmitum fer fjölgandi í Bandaríkjunum að nýju og óttast yfirvöld þar fjórðu Covid-19-bylgjuna. AFP

Bandarísk sóttvarnayfirvöld óttast nú að fjórða kórónuveirubylgjan sé í uppsiglingu en þar hefur smitum fjölgað mjög og eru mörg þeirra af þremur bráðsmitandi afbrigðum veirunnar.

Rochelle Walensky, forstjóri bandarísku sóttvarnastofnunarinnar (CDC), segir nýjar tölur varðandi Covid-19-smit vekja ugg. Í síðustu viku hafi verið staðfest um 70 þúsund smit daglega og tæplega 2 þúsund dauðsföll á dag. 

Rochelle Walensky.
Rochelle Walensky. Massachusetts General Hospital

Hún biður fólk um að hlusta vel og gæta vel að sér. Eins og staðan er núna, ný bráðsmitandi afbrigði dreifist hratt, sé útlit fyrir að allt það góða sem unnist hefur í baráttunni sé unnið fyrir gíg. „þessi afbrigði eru alvarleg ógn fyrir fólkið okkar og framvinduna hjá okkur.“

Mörg ólík afbrigði Covid-19 eru í gangi en heilbrigðisyfirvöld hafa einkum áhyggjur af þeim sem fyrst greindust í Bretlandi, Brasilíu og Suður-Afríku. 

Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna telur að afbrigðið sem fyrst greindist í Bretlandi, B.1.1.7, verði ráðandi í Bandaríkjunum nú í mars. Rochelle Walensky hvetur yfirvöld í ríkjum landsins til að standa föst á sínu og ekki draga úr aðgerðum í baráttunni við veiruna. 

Alls hafa yfir 28 milljónir smita verið staðfest í Bandaríkjunum og yfir hálf milljón þess fólks er látin. 

Alls hafa bandarísk yfirvöld bólusett yfir 76 milljónir landsmanna. Ekkert ríki heims hefur bólusett jafn marga en ef horft er til hlutfalls af stærð þjóðar eru Bandaríkin í fjórða sæti á eftir Bretlandi, Ísrael og Sameinuðu arabísku furstadæmunum. 

Á vef BBC kemur fram að á hverja 100 íbúa sé búið að bólusetja 92,5 í Ísrael, 60,8 í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, 31,3 í Bretlandi og 22 í Bandaríkjunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert