Frakkar hafa gagnrýnt Austurríki og Danmörku fyrir að sækjast eftir því að fá bóluefni í gegnum Ísrael en mjög hriktir í samstarfi Evrópusambandsríkjanna vegna þess hversu hægt gengur að fá bóluefni.
Kanslari Austurríkis, Sebastian Kurz, greindi frá samstarfinu við Ísrael og að Lyfjastofnun Evrópu væri of lengi að samþykkja bóluefni á mánudag. Því lendi ríki ESB aftarlega í röðinni hjá lyfjafyrirtækjunum sem framleiða bóluefni ólíkt löndum sem hafa flýtt samþykkinu.
Í yfirlýsingu frá franska utanríkisráðuneytinu kemur fram að það sem reynist best sé að halda fast í samstarf ríkjanna um bóluefnakaup. Á þennan hátt sé samstaða ríkjanna tryggð og það sé mikilvægara nú en nokkru sinni fyrr.
Kurz segir að það sé rangt að treysta alfarið á ESB lengur. Hann lét þessi ummæli falla í morgun, áður en hann og forsætisráðherra Danmerkur, Mette Frederiksen, lögðu af stað til Ísraels. Þar munu þau ganga frá samkomulagi um framleiðslu á bóluefnum í framtíðinni og rannsóknar- og þróunarsamstarf.
Utanríkisráðherra Frakklands, Jean-Yves Le Drian, tekur undir vonbrigði Kurz og Frederiksen með hversu lítið hafi fengist af bóluefni en gagnrýnir það sem hann kallar tilraun til úrsagnar. Frekar ætti að auka framleiðslumöguleika á bóluefnum í Evrópu og það sé eitthvað sem sé í vinnslu. Jafnframt hafi verið gerðar breytingar á ferlum varðandi yfirferð á bóluefnum hjá evrópsku lyfjastofnuninni sem mun væntanlega flýta ferlinu þegar kemur að bóluefnum sem talið er að dugi gegn bráðsmitandi afbrigðum Covid-19.