Að minnsta kosti 15 eru látnir og yfir 500 eru særðir eftir að öflugar sprengingar urðu á herstöð í Miðbaugs-Gíneu. Þessu greindi Teodoro Obiang Nguema, forseti landsins, frá fyrr í kvöld og sagði að gáleysi hermanna væri um að kenna. Talið er að dýnamít og önnur sprengiefni hafi verið geymd á óviðeigandi hátt.
Sprengingarnar áttu sér stað í borginni Bata. Þar búa um 800 þúsund manns á litlu svæði, margir í mikilli fátækt. Á myndskeiðum frá vettvangi mátti sjá sjálfboðaliða færa særð börn úr rústum bygginga undir þykkum svörtum reykjarmekki.
Sjúkrahúsrúm eru af skornum skammti í Bata og fjölmiðlar ytra greina frá því að særðir liggi margir hverjir eftir aðhlynningu á göngum sjúkrahúsa.
Talið er að sprengingarnar hafi ekki verið færri en fjórar og að sú fyrsta hafi orðið í byggingu þar sem sérsveit hersins og herlögreglan býr. Varaforseti Miðbaugs-Gíneu og sonur forsetans, Teodoro Nguema Obiang Mangue, sem er yfir varnar- og öryggismálum landsins, var mættur á vettvang skömmu eftir að ósköpin dundu yfir.
Rétt er að vara við myndskeiðinu sem fylgir fréttinni.