Grunaður um aðild að árásum í París

AFP

Ítalska lögreglan greindi frá því í morgun að hún hefði handtekið 36 ára gamlan Alsírbúa sem er grunaður um að vera félagi í vígasamtökunum Ríki íslams og að hafa aðstoðað við undirbúning hryðjuverkaárásanna í París í nóvember 2015.

Í tilkynningu frá lögreglu leiddi rannsókn hryðjuverkadeildar lögreglunnar í borginni Bari á Suður-Ítalíu í ljós að maðurinn aðstoðaði beint við árásina meðal annars með fölsuðum skilríkjum. Um 130 létust og 350 særðust í blóðbaðinu í París 13. nóvember 2015 er sjálfvígsárásir voru gerðar auk þess sem vopnaðir menn skutu á allt og alla sem fyrir þeim urðu á kaffihúsum og skemmtistað í borginni. 

Rannsakendur telja að maðurinn sé hluti af hryðjuverkahópi sem starfar í Frakklandi og Belgíu. Dagblaðið La Repubblica nafngreinir manninn, Athmane Touami, og segir í frétt blaðsins að hann sitji í fangelsi í Bari fyrir skjalafals. Hann átti að losna í júní. 

Lögreglan hefur boðað til blaðamannafundar vegna málsins síðar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka