Skólastúlka, sem sem kom af stað hatursherferð á netinu gegn kennara eftir að hann sýndi nemendum sínum skopmyndir af Múhammeð spámanni, hefur viðurkennt að hafa logið og dreift fölskum fullyrðingum um hann, sagði lögfræðingur hennar í dag.
Stúlkan hafði haldið því fram að kennarinn, Samuel Paty, sem var afhöfðaður af íslömskum öfgamanni í október í fyrra, hefði beðið múslima um að yfirgefa skólastofuna þegar hann sýndi nemendum myndirnar.
Faðir stúlkunnar lagði síðar fram kvörtun vegna málsins og magnaði upp ásakanirnar á netinu sem varð til þess að 18 ára flóttamaður, ættaður frá Tsjetsjeníu, leitaði Paty í bænum Conflans-Sainte-Honorine, norðvestur af París.
Árásarmaðurinn var skotinn til bana af lögreglumönnunum skömmu eftir árásina.
Lögmaður stúlkunnar segir hana hafa logið vegna þess að bekkjarfélagar hennar hefðu beðið hana um að sinna hlutverki talsmanns.
Paty sýndi skopmyndirnar, sem birtust fyrst í tímaritinu Charlie Hebdo og þykja móðgandi af mörgum múslimum, í tíma þar sem nemendur ræddu málfrelsi og guðlast.
Stúlkan, sem þegar hafði verið hótað brottvísun vegna agavandamála, var ekki í tímanum.
Hún hefur síðan verið ákærð fyrir rógburð en faðir hennar hefur verið ákærður fyrir hlutdeild í morðinu á Samuel Paty.
Drög að nýjum öryggislögum eru nú til umræðu á franska þinginu en verði þau samþykkt myndi það varða fangelsi að birta upplýsingar á netinu um opinberan starfsmann vitandi að það gæti valdið þeim skaða.