Val á kviðdómendum í dómsmálinu gegn Derek Chauvin, fyrrverandi lögreglumanni sem ákærður er fyrir að hafa banað George Floyd, hófst í dag. Enn er ekki ljóst hvort saksóknarar geti ákært hann fyrir morð af þriðju gráðu.
Chauvin er ákærður fyrir morð af annarri gráðu og manndráp fyrir að hafa kropið á hálsi Floyd í tæpar níu mínútur. Saksóknarar hafa óskað eftir því að bæta ákærulið við ákæruna og vilja að kviðdómendur hafi möguleikann á því að sakfella fyrir morð af þriðju gráðu. Er það talið auka líkurnar á að Chauvin verði fundinn sekur.
Dómarinn í málinu frestaði vali á kviðdómendum í gær þar sem úrskurður áfrýjunardómstóls lá ekki fyrir. Hann ákvað þó í dag að hefja ferlið sem mun taka um þrjár vikur.
Yfir 370 manns eru á vitnalista fyrir aðalmeðferð málsins sem á að hefjast 29. mars.