Andlitsskannar skjóta upp kollinum víða um Moskvu

Andlitsskannar sem greina ásjónur fólks hafa skotið upp kollinum víða um Moskvu, höfuðborg Rúsalands að undanförnu, hvort sem þeir eru tengdir greiðslukerfum, járnbrautarlestum eða afgreiðslukössum í stórmörkuðum.

Tæknin hefur haslað sér völl frá upphafi kórónuveirufaraldursins þar sem yfirvöld notuðu hana til þess að framfylgja lokunaraðgerðum. Samhliða því nota Rússar tæknina í auknum mæli til þess að framkvæma snertilausar greiðslur. Það hefur þótt sérstaklega hentugt í kórónuveirufaraldrinum.

Sumir fagna því að net andlitsskanna vaxi í Moskvu en það hefur vakið upp skelfingu aðgerðarsinna sem segja tæknina auðvelda yfirvöldum að fylgjast með þegnum sínum. 

Síðasta stóra stökkið í þessum efnum var tekið í dag þegar X5, leiðandi matvöruverslunarkeðja landsins, tilkynnti að hún ætlaði að taka upp greiðslukerfi með andlitsskanna í tugum stórmarkaða í Moskvu. Kerfið verður í framhaldinu tekið upp í 3.000 verslunum á landsvísu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert