Evrópusambandið (ESB) mun fá fjórum milljónum fleiri skammta af bóluefni Pfizer/BioNTech á næstu tveimur vikum en áður var áætlað. Skömmtunum á að koma til þeirra svæða, sérstaklega landamærasvæða, sem eru hvað verst stödd í baráttunni við Covid-19. Með þessu vill ESB tryggja frjálsa för fólks og varnings um ESB.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, greindi frá þessu í dag.
Ísland er aðili að bóluefnasamstarfi ESB en Ísland er eitt af þeim ríkjum innan samstarfsins sem er hvað best statt í faraldrinum svo ætla má að aukningin muni ekki hafa áhrif á þann skammtafjölda sem hingað á að kemur á næstu tveimur vikum.
Skammtarnir munu fara til landamærasvæða innan ESB til þess að „hjálpa til við að tryggja eða endurheimta frjálsa för fólks og varnings“, er haft eftir forsetanum í tilkynningu vegna málsins í dag.
Tilkynningin barst í kjölfar þess að framkvæmdastjórn ESB reyndi að sannfæra að minnsta kosti sex aðildarríki, þar á meðal heimaland von der Leyen, Þýskaland, um að aflétta veirutengdum landamæratakmörkunum sem ESB telur ganga of langt.
Í frétt AFP kemur fram að annar undanfari tilkynningarinnar hafi verið ákvörðun Danmerkur og Austurríkis um að leita til Ísraelsríkis í því skyni að framleiða bóluefni með ríkinu, utan bóluefnasamstarfs ríkja ESB.
Von der Leyen sagði að skammtarnir sem um ræðir verði afhentir „fyrir lok mars“. Þá telur hún að þeir muni hjálpa aðildarríkjum að nota skammtana þar sem þeirra sé helst þörf, sérstaklega við landamæri þeirra.