Stutt er í að heilbrigðiskerfi stærstu borga Brasilíu hrynji vegna kórónuveirufaraldursins samkvæmt nýrri skýrslu brasilísku vísindastofnunarinnar Fiocruz.
Þar kemur fram að yfir 80% af öllum gjörgæslurýmum séu í notkun í höfuðstöðum 25 af 27 ríkjum landsins. Í gær dóu 1.972 úr Covid-19 þar í landi og hafa dauðsföllin aldrei verið fleiri á einum sólarhring. Alls eru rúmlega 266 þúsund manns látnir af völdum Covid og 11 milljónir hafa smitast í Brasilíu frá því faraldurinn braust út. Brasilía skipar annað sætið á lista yfir þau ríki þar sem dauðsföllin eru flest og þriðja sætið þegar kemur að fjölda smita.
Í skýrslu Fiocruz segir að af ríkjunum 27 séu yfir 90% gjörgæslurúma í notkun í 15 höfuðstöðum ríkja, þar á meðal Rio de Janeiro og São Paulo. Í tveimur borgum, Porto Alegre og Campo Grande, eru gjörgæsludeildirnar þegar komnar yfir þolmörk. Allt bendi til þess að heilbrigðiskerfið í þessum borgum sé að hrynja.
Í síðustu viku sögðu sérfræðingar í samtali við dagblaðið Valor Economic að það styttist í að dauðsföllin yrðu fleiri en tvö þúsund á dag. Eina leiðin til þess að koma í veg fyrir það sé að alríkisstjórnin taki við stjórnartaumunum alfarið í baráttunni við Covid-19. Gripið yrði til verulegra takmarkana á samkomum, grímuskyldu komið á og allt kapp lagt á bólusetningar.
Yfir átta milljónir hafa fengið fyrri bóluefnaskammtinn í Brasilíu sem er rúmlega 4% af íbúafjöldanum.
Í gær voru staðfest yfir 70 þúsund smit sem er 38% aukning frá því sem var í síðustu viku. Þessi mikla aukning er rakin til bráðsmitandi afbrigðis veirunnar, P.1, sem fyrst greindist í borginni Manaus.
Þrátt fyrir þetta reynir forseti landsins, Jair Bolsonaro, að gera lítið úr hættunni. Fyrr í vikunni bað hann fólk að hætta að væla vegna veirunnar.