Hitnar í kolum úti fyrir köldum ströndum

Bandarísk B1-sprengjuflugvél í fylgd norskra F-35-orrustuvéla við Ørland skammt frá …
Bandarísk B1-sprengjuflugvél í fylgd norskra F-35-orrustuvéla við Ørland skammt frá Þrándheimi. Ljósmynd/Forsvaret

Í liðnum mánuði var sagt frá því án mikils lúðrablásturs að Bandaríkjastjórn myndi senda sveit B1-B langdrægra sprengjuflugvéla til norsku flugherstöðvarinnar í Ørland skammt frá Þrándheimi (Niðarósi). Má það þó teljast sögulegur atburður, því þetta er í fyrsta sinn í mannsaldur sem Norðmenn leyfa erlent herlið í landinu til annars en sameiginlegra heræfinga Atlantshafsbandalagsins (NATO).

Markmiðið með þessu er að senda Rússum skýr skilaboð um að svara megi örri hernaðaruppbyggingu þeirra á Kola-skaga; bæði flota og flugher auk kjarnorkuvopna á landi. Að þeim verði ekki liðið að auka ójafnvægi þar á norðurhjara. Fyrir sitt leyti biðu Rússar ekki með að svara, heldur boðuðu þeir til flugskeytaæfinga með skömmum fyrirvara á stóru hafsvæði milli Knöskaness (Nordkapp) og Bjarnareyju. Engum duldist táknræn þýðing þess.

Með þessu hefur athyglin aftur beinst að norðurslóðum sem átakalínu vestrænna ríkja gagnvart Kremlarbændum og í því samhengi virðast margir vera að átta sig enn á ný á mikilvægi Atlantshafsbandalagsins til þess að tryggja frið og öryggi í þessum heimshluta.

Það varðar Íslendinga ekki síður en aðrar þjóðir á norðurslóðum, eins og mátt hefur merkja af tíðara flugi rússneskra herflugvéla í grennd við landið og aukinni herskipaumferð þaðan. Sem hefur jafnframt endurspeglast í auknum áhuga Bandaríkjastjórnar á að taka upp nánara varnarsamstarf við Íslendinga að nýju.

Kalt stríð og hlýrri vindar

Þegar kalda stríðinu lauk með falli Sovétríkjanna árið 1991 varð spennufall á norðurslóðum. Rauði flotinn átti varla fyrir olíu lengur og um allan Kola-skaga grotnuðu herskip niður við bryggju. Áhugi Bandaríkjanna á norðurslóðum dvínaði um leið og bandarísk umsvif í Norður-Íshafinu urðu nær engin. Nauðsynin til þess að viðhalda GIUK-hliðinu svonefnda (milli Grænlands, Íslands og Bretlands) var ekki lengur augljós og fyrr en varði var búið að loka varnarstöðinni á Keflavíkurflugvelli.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert