Formaður þýska bólusetningarráðsins (STIKO) fer í viðtali við Rheinischer Post í dag lofsamlegum orðum um rússneska bóluefnið við Covid-19, Spútnik V.
„Þetta er gott bóluefni, sem verður líka sennilega leyft einhvern tímann innan Evrópusambandsins. Rússneskir vísindamenn eru mjög reyndir í bóluefnamálum og Spútnik V er skynsamlega samsett,“ segir formaðurinn, Thomas Mertens.
Bóluefni Rússa er til skoðunar hjá Lyfjastofnun Evrópu en ferlið virðist ekki langt á veg komið. Aðeins þrjú bóluefni hafa hlotið samþykki stofnunarinnar, Pfizer, Moderna og AstraZeneca, og gera má ráð fyrir að hið fjórða fái framgang á fundi 11. mars.
Þýska bólusetningarráðið hefur yfirumsjón með framkvæmd bólusetninga í Þýskalandi, þannig að orð formannsins vega þungt. Hann sagði að öðru leyti í viðtalinu að hann byndi vonir við að hægt væri að bólusetja það marga fyrir haustið í Þýskalandi að ónæmið væri farið að hafa veruleg áhrif í samfélaginu.
Ríki innan Evrópusambandsins hafa heimild til þess að leyfa bóluefni upp á eigin spýtur en flest fara þau í öllu að ráðleggingum lyfjastofnunarinnar. Ungverjaland gerir það þó til dæmis ekki og hefur leyft Spútnik V og kínverska bóluefnið Sinopharm. Áform eru uppi um annað eins í Slóvakíu.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði við mbl.is í gær að Íslandi væri heimilt að leita til annarra framleiðenda bóluefnis en þeirra sem ESB hefur samið við.
„Þótt við séum bundin af Evrópusambandssamningunum og munum halda áfram því samstarfi sem við erum í við aðrar Evrópuþjóðir getum við að sjálfsögðu leitað til framleiðenda sem standa utan við þá samninga,“ sagði Katrín en nefndi ekki sérstaklega hvaða framleiðendur um væri að ræða.