Talið er að Bandaríkjaþing muni í dag samþykkja björgunarpakka Joe Bidens Bandaríkjaforseta fyrir efnahaginn og bandarísk heimili sem hljóðar upp á 1.900 milljarða Bandaríkjadala. Ef það gengur eftir mun það hafa gríðarleg áhrif, ekki bara á efnahagslífið í Bandaríkjunum heldur í heiminum.
Björgunarpakkinn mun verða sá stærsti í sögu Bandaríkjanna og þótt víðar væri leitað. Stjórnmálaskýrendur telja að samþykkt hans verði stór áfangasigur fyrir Joe Biden enda eitt af stóru kosningaloforðum hans.
Atkvæðagreiðslan hófst klukkan 18 að íslenskum tíma og ef allt fer að óskum gæti Biden staðfest frumvarpið í lok vikunnar.
Meðal aðgerða sem pakkinn inniheldur eru 1.400 dala eingreiðsla til flestra Bandaríkjamanna, aukið fé í heilbrigðisþjónustu og atvinnuleysistryggingasjóð. Þá verða útgjöld í velferðarþjónustu og menntakerfið stóraukin en 130 milljarðar dala eru eyrnamerktir bandarískum skólum.
Búist er við að atkvæðagreiðslan muni fara eftir flokkslínum en frjálslyndir og íhaldssamir demókratar hafa náð samkomulagi um frumvarpið. Repúblikanar á þinginu eru hins vegar á móti frumvarpinu og margir hverjir hafa kallað það sósíalískt. Skoðanakannanir sýna þó að almennt ríkir einhugur meðal Bandaríkjamanna um mikilvægi björgunarpakkans, óháð því í hvaða flokki fólk er.