Haldi áfram að nota bóluefni AstraZeneca

Höfuðstöðvar lyfjafyrirtækisins Astra Zeneca í Bretlandi.
Höfuðstöðvar lyfjafyrirtækisins Astra Zeneca í Bretlandi. AFP

Evrópulönd geta haldið áfram að nota bóluefni AstraZeneca gegn Covid-19 á meðan möguleg tengsl milli blóðtappa og bólusetninga eru rannsökuð. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sér­fræðinga­nefnd Lyfja­stofn­un­ar Evr­ópu (EMA).

Notkun bóluefnisins hefur verið tímabundið stöðvuð hér á landi, í Danmörku, Noregi, Lúxemborg, Eistlandi, Lett­landi og Lit­há­en.

Fram kom í frétt danska rík­is­út­varps­ins í morgun að til­kynnt hefði verið um al­var­leg­ar auka­verk­an­ir, blóðtappa eft­ir bólu­setn­ingu AstraZeneca, og ein til­kynn­ing varðaði and­lát. Af þeim sök­um verður notk­un bólu­efn­is­ins stöðvuð í tvær vik­ur. Enn frem­ur hafi borist upp­lýs­ing­ar um dauðsfall í Aust­ur­ríki.

Fram kemur í tilkynningu Sérfræðinganefndarinnar að kostir bóluefnisins í baráttunni við Covid-19 séu meiri en möguleg áhætta af notkun þess og því eigi að halda áfram að nota það á meðan aukaverkanirnar eru rannsakaðar nánar.

Þar kemur enn fremur fram að vitað hafi verið um 30 tilfelli blóðtappa hjá þeim fimm milljónum manna sem hafa verið bólusettir með bóluefni AstraZeneca í löndum Evrópusambandsins.

Fjöldi þeirra sem hafi fengið blóðtappa sé ekki hærri en gengur og gerist hjá fólki og stofnunin segir engin tengsl sjáanleg á milli veikindanna og bóluefnisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert