Evrópulönd geta haldið áfram að nota bóluefni AstraZeneca gegn Covid-19 á meðan möguleg tengsl milli blóðtappa og bólusetninga eru rannsökuð. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu (EMA).
Notkun bóluefnisins hefur verið tímabundið stöðvuð hér á landi, í Danmörku, Noregi, Lúxemborg, Eistlandi, Lettlandi og Litháen.
Fram kom í frétt danska ríkisútvarpsins í morgun að tilkynnt hefði verið um alvarlegar aukaverkanir, blóðtappa eftir bólusetningu AstraZeneca, og ein tilkynning varðaði andlát. Af þeim sökum verður notkun bóluefnisins stöðvuð í tvær vikur. Enn fremur hafi borist upplýsingar um dauðsfall í Austurríki.
Fram kemur í tilkynningu Sérfræðinganefndarinnar að kostir bóluefnisins í baráttunni við Covid-19 séu meiri en möguleg áhætta af notkun þess og því eigi að halda áfram að nota það á meðan aukaverkanirnar eru rannsakaðar nánar.
Þar kemur enn fremur fram að vitað hafi verið um 30 tilfelli blóðtappa hjá þeim fimm milljónum manna sem hafa verið bólusettir með bóluefni AstraZeneca í löndum Evrópusambandsins.
Fjöldi þeirra sem hafi fengið blóðtappa sé ekki hærri en gengur og gerist hjá fólki og stofnunin segir engin tengsl sjáanleg á milli veikindanna og bóluefnisins.