Allir nema Trump

AFP

Fjórir fyrrverandi forsetar Bandaríkjanna, þeir Barack Obama, George W. Bush, Bill Clinton og Jimmy Carter, koma fram í nýrri auglýsingaherferð í Bandaríkjunum. Um er að ræða herferð til að hvetja Bandaríkjamenn til að láta bólusetja sig.

Eini fyrrverandi forseti Bandaríkjanna sem er á lífi en tekur ekki þátt í herferðinni er Donald Trump að því er segir í frétt Forbes.

Þar kemur fram að Trump hafi látið bólusetja sig með leynd eftir að hafa áður sagt að hann væri ónæmur fyrir veirunni. Trump hefur einnig sagt að sá árangur sem hefur náðst í framleiðslu og þróun bóluefna sé honum að þakka. 

Þetta er undir þér komið nefnist herferðin (It's Up To You). Þar koma einnig fram eiginkonur forsetanna fyrrverandi. Þær Michelle Obama, Laura Bush, Hillary Clinton og Rosalynn Carter. 

Myndskeið sem er hluti af herferðinni sýnir forsetana fyrrverandi og eiginkonur þeirra með grímu þegar þau eru bólusett.

„Ég læt bólusetja mig því við viljum að þessum faraldri ljúki eins fljótt og auðið er,“ segir Carter á meðan Bush hvetur Bandaríkjamenn til að bretta upp ermar og taka þátt. Clinton talar um að nú þegar sé búið að fórna allt of mörgum mannslífum og skaðinn sé mikill. Obama talar um að bólusetningin sé fyrsta skrefið í að ljúka faraldrinum og koma landinu af stað á ný. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert