Bóluefni fyrir alla frá 1. maí

Joe Biden Bandaríkjaforseti kveðst vongóður um að Bandaríkin geti „fagnað sjálfstæði“ frá Covid-19 á þjóðhátíðardaginn 4. júlí ef fólk þiggur bólusetningu. Í ávarpi í gærkvöldi sagði forsetinn að bóluefni yrði aðgengilegt öllum fullorðnum frá 1. maí.

Í gær var akkúrat ár síðan Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) lýsti því yfir að Covid-19 væri heimsfaraldur. Síðan þá hefur hálf milljón Bandaríkjamanna látist af völdum veirunnar og gagnrýndi Biden aðgerðaleysi forvera síns í upphafi faraldursins.

Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Joe Biden Bandaríkjaforseti. AFP

Þrátt fyrir góðar fréttir varðandi bóluefni sagði Biden að fólk mætti ekki slaka á núna. Hann brýndi fyrir fólki að virða áfram fjarlægðarmörk, þvo hendur og bera grímu.

„Þetta snýst allt um einingu þjóðarinnar,“ sagði Biden.

Forsetinn sagði í síðasta mánuði að hann vonaðist til þess að lífið yrði eins og fyrir faraldurinn um næstu jól. Ant­hony Fauci, sótt­varna­lækn­ir Banda­ríkj­anna, sagði þá áætlun raunhæfa.

Áður hafði Biden undirritað frumvarp um björgunarpakka fyrir efnahag og bandarísk heimili sem hljóðar upp á 1.900 milljarða Bandaríkjadala.

Biden brýndi fyrir Bandaríkjamönnum að bera grímur áfram.
Biden brýndi fyrir Bandaríkjamönnum að bera grímur áfram. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert