Joe Biden Bandaríkjaforseti kveðst vongóður um að Bandaríkin geti „fagnað sjálfstæði“ frá Covid-19 á þjóðhátíðardaginn 4. júlí ef fólk þiggur bólusetningu. Í ávarpi í gærkvöldi sagði forsetinn að bóluefni yrði aðgengilegt öllum fullorðnum frá 1. maí.
Í gær var akkúrat ár síðan Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) lýsti því yfir að Covid-19 væri heimsfaraldur. Síðan þá hefur hálf milljón Bandaríkjamanna látist af völdum veirunnar og gagnrýndi Biden aðgerðaleysi forvera síns í upphafi faraldursins.
Þrátt fyrir góðar fréttir varðandi bóluefni sagði Biden að fólk mætti ekki slaka á núna. Hann brýndi fyrir fólki að virða áfram fjarlægðarmörk, þvo hendur og bera grímu.
„Þetta snýst allt um einingu þjóðarinnar,“ sagði Biden.
Forsetinn sagði í síðasta mánuði að hann vonaðist til þess að lífið yrði eins og fyrir faraldurinn um næstu jól. Anthony Fauci, sóttvarnalæknir Bandaríkjanna, sagði þá áætlun raunhæfa.
Áður hafði Biden undirritað frumvarp um björgunarpakka fyrir efnahag og bandarísk heimili sem hljóðar upp á 1.900 milljarða Bandaríkjadala.