Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur gefið það út að engin ástæða sé til þess að hætta að bólusetja með bóluefni AstraZeneca. Nokkrar Evrópuþjóðir, þar á meðal Ísland, hafa stöðvað tímabundið notkun bóluefnisins.
„Já, við ættum að halda áfram að nota bóluefni AstraZeneca. Það eru engar ástæður til að nota það ekki,“ sagði talsmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar við fjölmiðla fyrr í dag.
Notkun bóluefnisins var stöðvuð eftir að tilkynnt var um mögulegar, alvarlegar aukaverkanir vegna bólusetningar með efninu, annars vegar andlát og hins vegar blóðtappa, í Danmörku.
Þórólfur Guðnason tilkynnti að á upplýsingafundi Almannavarna í gær að bóluefnið yrði ekki notað hér á landi um einhvern tíma. Hann tók þó fram að Lyfjastofnun Evrópu (EMA) telji ekki að orsakasamhengi sé milli blóðtappa og bóluefnisins. EMA hefur sagt að óhætt sé að nota bóluefnið á meðan málin séu rannsökuð.
Notkun efnisins hefur einnig verið stöðvuð í Danmörku, Noregi, Lúxemborg, Eistlandi, Lettlandi og Litháen og í dag bættist Búlgaría á þann lista.
„Ég hef fyrirskipað stöðvun á bólusetningu með bóluefni AstraZeneca þangað til að Lyfjastofnun Evrópu hefur gert ljóst að öryggi þess sé hafið yfir allan vafa,“ sagði Boyko Borisov, forsætisráðherra Búlgaríu, í tilkynningu.