Segja engin tengsl milli bóluefnisins og blóðtappa

Fjöldi heilbrigðisyfirvalda hefur fullyrt að AstraZeneca-bóluefnið sé öruggt.
Fjöldi heilbrigðisyfirvalda hefur fullyrt að AstraZeneca-bóluefnið sé öruggt. AFP

AstraZeneca hefur enn á ný þurft að verja bóluefni sitt gegn Covid-19 en áhyggjur hafa vaknað um hugsanlega tengingu bóluefnisins við blóðtappa. Í kjölfarið hafa nokkur lönd í bæði Evrópu og Asíu hætt tímabundið að bólusetja með bóluefni AstraZeneca þrátt fyrir að yfirvöld víðs vegar um heim haldi því fram að bóluefnið sé öruggt.

„Greining á gögnum okkar á yfir 10 milljónum tilfella hefur ekki sýnt fram á neinar vísbendingar um aukna hættu á lungnasegareki eða segamyndun í djúpum bláæðum í neinum skilgreindum aldurshópi, kyni, hópi eða í neinu sérstöku landi eftir bólusetningu,“ sagði í tilkynningu frá AstraZeneca og jafnframt:

„Reyndar er fjöldi þessara tilfella marktækt lægri hjá þeim sem bólusettir voru en búast mætti ​​við meðal almennings.“

Bóluefnið hefur verið ansi umdeilt. Sum stjórnvöld hafa neitað að bólusetja fólk eldra en 65 ára vegna skorts á gögnum sem sanna að það væri öruggt fyrir aldraða, en þær sannanir hafa nú verið veittar.

Fyrirtækið hefur einnig lent í deilum við Evrópusambandið vegna afhendingaráætlunar þess en AstraZeneca hefur verið ásakað um að það sé hlynnt Bretum því Bretland tryggði sér samning áður en það gekk að fullu úr ESB.

Deilurnar hafa haft áhrif á traust almennings í Evrópu, þar sem milljónir skammta af AstraZeneca-bóluefni sitja ónotaðir til furðu sérfræðinga sem segja að ónauðsynleg rifrildi séu að koma í veg fyrir áframhaldandi bólusetningar.

„Þegar eitthvað slæmt gerist eftir bólusetningu er ansi eðlilegt að velta því fyrir þér hvort bóluefnið hafi verið orsökin,“ sagði Adam Finn, prófessor í barnalækningum við Háskólann í Bristol á Suðvestur-Englandi.

En í hverri fjöldabólusetningarherferð, „munu óvæntir og óvenjulegir sjúkdómar eiga sér stað á tímabilinu eftir bólusetningu fyrir tilviljun,“ sagði hann.

Engin orsakatengsl milli bóluefnisins og blóðtappa segir WHO

Í vikunni hefur Ísland ásamt bæði Danmörku og Noregi hætt tímabundið notkun á AstraZeneca-bóluefninu í varúðarskyni eftir einangraðar tilkynningar um blóðtappa í kjölfar bólusetninga.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) sagði þó fyrr á föstudag að engin ástæða væri fyrir því að stöðva notkun bóluefnisins og lagði áherslu á að engin orsakatengsl væru á milli bólusetningarinnar og blóðtappanna.

Fjöldi annarra heilbrigðisyfirvalda hafa einnig fullyrt að það sé öruggt, þar á meðal Lyfjastofnun Evrópu.

„Raunveruleikinn er sá að ESB á allt að 11,5 milljónir ónotaðra bóluefnisskammta sökum tregðu til að taka við bóluefninu vegna vafasamra staðhæfinga sumra evrópskra stjórnmálamanna, sem hefur þýtt að að bóluefnið hefur átt erfitt uppdráttar,“ sagði Michael Hewson, markaðsgreiningaraðili hjá CMC Markets.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka