Loka skólum, verslunum og veitingastöðum

AFP

Verslunum, veitingastöðum og skólum verður lokað á Ítalíu á mánudag og varar forsætisráðherra landsins, Mario Draghi, við nýrri kórónuveirubylgju. Yfir páskana verður öllu skellt í lás í nokkra daga, það er 3.-5. apríl.

Ítalía varð fyrir ári eitt fyrsta landið til að setja á harðar sóttvarnareglur en nú virðist sem ný bylgja sé í uppsiglingu. Yfir 100 þúsund hafa látist af völdum Covid-19 á Ítalíu og eru dauðsföllin þar næstflest í Evrópu á eftir Bretlandi.

Skólum, verslunum og veitingastöðum er gert að loka á mánudag á meira en helmingi svæða á Ítalíu. Þar á meðal í fjölmennustu héruðunum, Róm og Mílanó. Íbúum verður gert að halda sig heima þegar þeir eru ekki í vinnu eða þurfa að sinna brýnum erindagjörðum.

Miklar tafir hafa orðið á bólusetningarherferðinni á Ítalíu líkt og víðast hvar í Evrópu. Í síðustu viku stöðvaði ítalska ríkisstjórnin útflutning á 250 þúsund skömmtum af bóluefni AstraZeneca til Ástralíu vegna þess hversu fáir skammtar hafa borist til Ítalíu af bóluefninu. 

Lönd eins og Búlgaría, Danmörk, Noregur og Ísland, hafa öll gert hlé á bólusetningum með bóluefni AstraZeneca vegna mögulegra tengsla bólusetningar við blóðtappa. Afar litlar líkur eru taldar á því að tengsl séu þar á milli en í vikunni var upplýst að þrjár tilkynningar hafi borist vegna þess að fólk hafi fengið blóðtappa í kjölfar bólusetningar hér á landi og eru þær nú til skoðunar hjá landlæknisembættinu. Tilkynningarnar voru vegna allra bóluefnanna þriggja sem gefin hafa verið hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert