Borgaryfirvöld í Stokkhólmi og Ósló hafa ritað ríkisstjórnum Svíþjóðar og Noregs bréf þar sem hvatt er til þess að þær vinni saman að uppsetningu hraðlestar milli höfuðborganna tveggja. Um 417 kílómetrar skilja borgirnar tvær að, en lestarferð þeirra á milli tekur nú rúmar fimm klukkustundir.
Í bréfinu, sem birt er í viðskiptablaðinu Dagens industri, er bent á að löng og samofin saga Norðurlandanna geri það að verkum að mikill samgangur er á milli borganna, í það minnsta í eðlilegu árferði. Viðskipti landanna á milli séu mikil og á þriðja þúsund fyrirtæki frá hvoru landi haldi úti dótturfyrirtæki í hinu.
Lestarferferð upp á rúmar fimm klukkustundir þykir ekki nógu góður valkostur við flugferð, sem aðeins tekur um 50 mínútur, að mati borgaryfirvalda. Fyrir vikið er flugleggurinn milli Stokkhólms og Óslóar 20. fjölfarnasti leggur í heimi, næst á eftir leggnum London-Frankfurt, með tilheyrandi loftmengun. Um 12.804 farþegaflug voru flogin milli borganna árið 2018.
„Fljótlegri ferðalög með fjölbreyttum ferðamátum eru nauðsynleg til þess að styrkja borgirnar okkar og svæðið í heild í alþjóðlegu samhengi,“ segir í bréifinu sem Anna König Jerlmyr, formaður fjárlaganefndar í borgarráði Stokkhólms, og Raymond Johansen, formaður bæjarráðs Óslóar, skrifa undir.
Verkefnið hefur fengið nafnið 2:55 verkefnið (Projekt 2:55 á skandinavísku) en það vísar til tímans sem ásættanlegt þykir að taki að ferðast milli borganna tveggja með lest.
Verði það að veruleika yrði lestarferð í flestum tilvikum að fullu samkeppnishæf við flugið þegar litið er til ferðatíma.
Þótt flugið taki aðeins 50 mínútur má nefnilega ekki gleyma öllum þeim tíma sem fylgir flugferðum en ekki lestarferðum. Flugvellir eru gjarnan úti fyrir borgarmörkin, mæta þarf á völlinn dágóðum tíma áður en flugvélin fer í loftið, og eins tekur nokkra stund að koma sér úr vél, af flugvellinum og inn í borg þegar áfangastaðnum er náð. Til samanburðar flytja lestir farþega jafnan frá miðborg til miðborgar.
Þrátt fyrir að kalla verkefnið hraðlest (s. snabbtåg) er þó á mörkunum að hraðlest þurfi til að ná markmiðinu. Samkvæmt skilgreiningum Evrópusambandsins eru hraðlestir þær lestir sem ferðast á að minnsta kosti 200 kílómetra hraða, en aðeins þyrfti meðalhraða upp á um 140 til að ná fyrrnefndum tímamörkum.