Ríkisstjórn Finnlands hefur ákveðið að framlengja þær ferðatakmarkanir sem gilda þar í landi til 17. apríl. Neyðarástandi var lýst yfir í Finnlandi 1. mars vegna fjölgunar nýrra kórónuveirusmita þar í landi. Í dag var greint frá 863 nýjum smitum. Fleiri Finnar eru nú jákvæðir í garð bólusetninga við Covid-19 en áður og gengur þokkalega að bólusetja þar í landi. Grímuskylda er nú í almenningssamgöngum í Helsinki og fleiri staðir bætast við á morgun.
Yfir 70% íbúa sem eru 80 ára og eldri hafa fengið að minnsta kosti fyrri bólusetninguna og í Helsinki hafa um 97,3% íbúa 85 ára og eldri látið bólusetja sig.
Nýjum smitum fjölgar áfram í Finnlandi og því gilda áfram takmarkanir á ferðalögum til og frá landinu. Öllum íbúum annarra ríkja innan Schengen er bannað að koma til landsins nema Íslendingum samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar Finnlands. Það þýðir að landamæri Finnlands eru lokuð fyrir Svía, Dani og Norðmenn auk fjölmargra annarra ríkja Evrópu, svo sem Eystrasaltsríkjanna.
Jafnframt er íbúum flestra annarra ríkja heims bönnuð koma til Finnlands fyrir utan Páfagarð, Ástralíu, Suður-Kóreu, Singapúr, Taíland og Nýja-Sjáland. Sama gildir um ferðalög Finna til þessara ríkja. Þær breytingar verða gerðar nú að heimilt er að ferðast til og frá Rúanda og Finnlands. Það sem þessi ríki eiga sameiginlegt eru fá kórónuveirusmit.