Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) fundar á fimmtudag þar sem frekari ákvarðanir vegna bólusetningar með bóluefni AstraZeneca verða ræddar. Sérfræðinganefndin ítrekar að kostir bóluefnisins í baráttunni við Covid-19 séu meiri en möguleg áhætta af notkun þess.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá nefndinni eftir að fleiri Evrópulönd, þar á meðal Þýskaland og Frakkland, hættu tímabundið notkun bóluefnisins vegna ótta við blóðtappa af völdum efnisins.
Heilbrigðisstarfsmaður í Noregi, sem bólusettur var með bóluefni AstraZeneca, lést úr heilablæðingu í gær. Ekki hefur fundist orsakasamhengi milli andláts viðkomandi og bólusetningarinnar, að því er fram kemur í tilkynningu frá norskum heilbrigðisyfirvöldum.
„Sérfræðinganefndin lítur þannig á málin að kostir bóluefnis AstraZeneca til að koma í veg fyrir kórónuveirusmit, með hættu á spítalavist og andláti, séu meiri en mögulegar aukaverkanir,“ segir í tilkynningu frá EMA.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti sagði fyrr í dag að Frakkar ætluðu að bíða með notkun bóluefnisins þar til betur hefði verið farið yfir málið.