„Þetta er ljótleikinn í sinni hreinustu mynd svo vægt sé til orða tekið,“ segir Andreas Dyrdal, deildarstjóri rekstrardeildar Björgvinjarhafnar í Noregi, í samtali við ríkisútvarpið NRK. Tilefni samtalsins er árleg vorhreingerning þeirra hafnarstarfsmanna sem felst í því að hreinsa sorp upp af botni hafnarinnar og koma því á endurvinnslustöðvar bæjarins þar sem mengun og óþrifnaður hlýst ekki af.
Óhætt er að segja að ýmissa grasa kenni meðal þess sem bæjarbúar kasta í sjóinn, oft í ölæði um helgar, en einsdæmi er að fimmtán rafmagnshlaupahjól fiskist upp úr höfninni við vorþrifin, eða rafskútur eigi sú íslenska þýðing betur við þegar þessi umdeildu farartæki eru komin í saltan sjó.
„Er þetta sem sagt vandamál á Íslandi líka úr því þú ert að biðja mig um myndir?“ spyr Dyrdal í tölvupósti til mbl.is þar sem hann leggur við myndir þær sem fylgja þessum línum.
Við NRK segir hann að vaninn sé að hjólbarðar, flöskur og útileguhúsgögn skili sér úr greipum ægis við árleg hafnarþrif í Bergen, hlaupahjólin séu hins vegar ný í þessari flóru. „Rafhlöðurnar fara með tímanum að leka og valda mengun í sjónum sem við kærum okkur ekki um,“ segir deildarstjórinn.
Hann segir bæjarbúa suma hverja fá útrás fyrir bræði sína með því að grýta hlutum í voginn svipmikla í miðbænum og undir það tekur Espen Rønneberg, framkvæmdastjóri rafskútuleigunnar Ryde í Bergen.
„Við höfum farið ofan í saumana á þessu máli og það eru ekki okkar viðskiptavinir sem kasta hjólunum í sjóinn. Þetta er mikið til ölvað fólk sem er á ferð að næturlagi um helgar og finnur hjólin á förnum vegi,“ segir Rønneberg sem kannast vel við vandamálið, enda hefur hans starfsfólk fiskað ein 30 hjól upp úr sjónum við miðbæjarsvæðið.
Flest kringum þessa nýstárlegu fararskjóta hefur orðið Norðmönnum þrætuepli og nýlega féll fyrsti refsidómurinn í Noregi yfir manni sem ók á eldri konu á fleygiferð í miðbæ Óslóar á rafhjóli.
Espen Rønneberg hefur einnig fengið að sjá réttarsali að innan vegna hjóla sinna, Bergen stefndi fyrirtæki hans þegar það hóf rekstur í fyrrasumar án allra samninga við sveitarfélagið og krafðist þess að hjólunum yrði eingöngu lagt á merktum stæðum ætluðum þeim. Eftir ósigur fyrir héraðsdómi áfrýjaði Rønneberg til Lögmannsréttar þar sem hann fékk meðbyr og þurfti ekki að notast við slík stæði.
Dyrdal hjá höfninni óskar eftir samstarfi við leigusala rafhjóla í bænum við að finna lausn á vandanum og kveðst Rønneberg allur af vilja gerður og hafi þegar rætt við þá hafnarmenn. „Á mánudaginn [í dag] munum við skrifa undir samstarfssamning við höfnina,“ segir framkvæmdastjórinn og kveður meðal annars hugmyndir uppi á borðum um að færa hleðslustæði hjólanna fjær sjónum í fyrstu atrennu.