Charlotte Reedtz, prófessor í sálfræði við Háskólann í Tromsø, segir Norðmenn eiga að þora að vera gagnrýnni í garð langvarandi lokana víða um þjóðfélagið sem að hennar mati séu ekki í nokkru samhengi við hættuástandið í landinu.
„Vandamálið við sóttvarnaráðstafanir yfirvalda er að þær eru ekki í minnsta samræmi við áhættuna sem fylgir smiti,“ sagði Reedtz í þættinum Helgemorgen á P2-útvarpsrás norska ríkisútvarpsins NRK á laugardagsmorguninn.
Benti prófessorinn þar á að Noregur stæði einna best að vígi allra landa í heiminum þegar litið væri til tölfræði yfir alvarlega veika og látna af völdum kórónuveirunnar. „Pólitíska landslagið er orðið að einhvers konar keppni í að hlýða yfirvöldum,“ segir Reedtz og bendir á að andleg heilsa barna og ungmenna sé að veði eftir allar ráðstafanirnar sem norsk heilbrigðisyfirvöld hafa gripið til síðasta árið.
„Hér er keppst við að beita ströngustu mögulegu ráðstöfunum um allt landið eins lengi og mögulegt er án þess að bera kostnaðinn og gagnsemina af þeim saman við kostnaðinn og afleiðingarnar á hinn bóginn,“ sagði Reedtz.
Allir ættu að sjálfsögðu að taka sóttvörnum af fullri alvöru, en tilskipanir yfirvalda ættu að taka mið af fjölda þeirra sem veikjast, ekki fjölda smitaðra.
Þessu mótmælir Espen Rostrup Nakstad, aðstoðarforstöðumaður Heilbrigðisstofnunar Noregs, í samtali við NRK og kveður greinilega fylgni milli fjölda smitaðra og innlagna á sjúkrahús. „Nú þegar fjöldi smittilfella hefur rúmlega tvöfaldast á fáeinum vikum sjáum við einnig fjölgun innlagna úr um það bil 70 í 160,“ segir Nakstad.
„Er það eingöngu fjöldi sjúkra og látinna sem telur?“ spyr Reedtz sem hefur fylgst grannt með andlegri líðan barna og ungmenna í sinni heimabyggð, Tromsø. „Á því leikur ekki nokkur vafi að sóttvarnaráðstafanirnar í Noregi koma harðast niður á börnum og ungmennum. Fjöldi rannsókna á eftir að sýna að hegðunarvandi, einbeitingarvandi, einmanaleiki, þunglyndi og kvíði hefur aukist til muna, hvort tveggja meðal yngra og eldra fólks,“ segir sálfræðiprófessorinn.
Enn fremur segir hún rétta tímann núna til að skoða virkni þeirra sóttvarnaráðstafana sem gripið er til. „Ég er þeirrar skoðunar að allir, ekki bara ungt fólk, séu of fylgispakir.“
Mari Holm Lønseth, þingmaður Høyre-flokksins, tekur í sama streng og Reedtz og segir faraldurinn hvort tveggja hafa aukið á þjáningar þeirra, sem glímdu við andlegar áskoranir fyrir, og kallað fram nýjar þjáningar.
„Geðræn vandamál mega ekki verða næsti faraldur,“ skrifar Lønseth í pistli á umræðuvefnum Nordnorsk debatt. Við NRK segist hún hafa þungar áhyggjur af andlegri heilsu þjóðarinnar. „Við verðum að gera okkur skýrari mynd af því hverjir berjast í bökkum og hvaða hjálpar þeir þarfnast,“ segir þingmaðurinn.
Að hennar áliti eru krefjandi sóttvarnareglur nauðsynlegar, en norsk sveitarfélög hafi fengið skýr fyrirmæli um, að heilbrigðisstarfsfólk skuli taka börnum og unglingum opnum örmum frekar en að leggja áherslu á að veiruprófa þau eða setja í smitrakningarferli. Hjálparsímalínur hafi fengið fjárstuðning, nemendasamtök, sjúkrahús og hjálparsamtök, allt miði þetta að því að rétta þeim, sem eiga undir högg að sækja, hjálparhönd á ögurstundu.
Til að bregðast við stöðugum fregnum af hnípinni þjóð í vanda hafa norsk stjórnvöld nú skipað starfshóp til að fara ofan í saumana á því hvaða áhrif faraldurinn hefur haft á andlega heilsu Norðmanna og er honum gert að skila af sér tillögum til úrbóta fyrir 30. apríl.