Norskur heilbrigðisstarfsmaður látinn

Notkun bóluefnis AstraZeneca hefur tímabundið verið hætt víða í Evrópu, …
Notkun bóluefnis AstraZeneca hefur tímabundið verið hætt víða í Evrópu, meðal annars hér á landi. AFP

Heilbrigðisstarfsmaður í Noregi, sem bólusettur var með bóluefni AstraZeneca, lést úr heilablæðingu í gær. Ekki hefur fundist orsakasamhengi milli andláts viðkomandi og bólusetningarinnar, að því er fram kemur í tilkynningu frá norskum heilbrigðisyfirvöldum.

Konan var á meðal þriggja heilbrigðisstarfsmanna sem lagðir voru inn á sjúkrahús vegna blóðtappa. Hún var undir fimmtugu og við góða heilsu.

Þetta er annað dauðsfallið af sama meiði sem verður í Noregi á aðeins örfáum dögum og hefur notkun bóluefnis AstraZeneca við kórónuveirunni verið hætt tímabundið þar eins og hér á landi.

Fleiri tilfelli víða um Evrópu

Á laugardag tilkynntu norsk heilbrigðisyfirvöld að þrír heilbrigðisstarfsmenn lægju á sjúkrahúsi vegna blóðtappa. Allir þrír eru undir fimmtugu og höfðu verið bólusettir með bóluefni AstraZeneca. Eins og fyrr segir er konan sem lést ein þeirra. Hún var lögð inn á sjúkrahús á fimmtudag síðastliðinn, aðeins viku eftir að hafa fengið fyrsta skammt bóluefnis AstraZeneca.

Annars heilbrigðisstarfsmaður lést á föstudag en sú var á fertugsaldri og hafði fengið bólusetningu við kórónuveirunni með bóluefni AstraZeneca tíu dögum fyrir andlátið. Um 130 þúsund manns höfðu verið bólusettir með bóluefni AstraZeneca áður en notkun þess var tímabundið hætt.

Evrópska lyfjastofnunin rannsakar nú hvort tengsl séu á milli bólusetningar með bóluefni AstraZeneca og dauðsfalla af völdum blóðtappa, sem einnig hafa orðið í Danmörku og Austurríki. Um 150 þúsund manns hafa verið bólusett með bóluefni AstraZeneca í Danmörku og 9.271 hefur verið bólusettur hér á landi með bóluefni AstraZeneca.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert