Biden segist sammála að Pútín sé morðingi

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna (til vinstri) og Vladimír Pútín, forseti …
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna (til vinstri) og Vladimír Pútín, forseti Rússlands. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti segist sammála því mati að forseti Rússlands, Vladimír Pútín, sé „morðingi“. Í viðtali við fréttastofu ABC í dag sagði Biden að Pútín myndi þurfa að súpa seyðið af því að reyna að hafa áhrif á kjör hans til forseta árið 2020 eins og haldið er fram í skýrslu leyniþjónustunnar í Bandaríkjunum. 

Aðspurður hvort hann teldi að Pútín, sem hefur verið sakaður um grimmd gagnvart andstæðingum sínum, væri morðingi, svaraði Biden játandi. 

Slík yfirlýsing er stefnubreyting frá því sem gilti í forsetatíð Donalds Trumps þar sem hann neitaði ávallt að segja nokkuð neikvætt um forsetann rússneska. 

Fram hefur komið að Biden hafi rætt við Pútín eftir að hann tók við embætti forseta Bandaríkjanna. 

„Við ræddum lengi saman, hann og ég, ég þekki hann nokkuð vel,“ sagði Biden eftir samtal þeirra starfsbræðra. 

„Samtalið hófst á því að ég sagði: „Ég þekki þig og þú þekkir mig. Ef ég fæ staðfestingu á að þetta hafi átt sér stað, þá skaltu vera undirbúinn“,“ sagði Biden. Ekki kom fram hvort hann átti við afskipti Rússa af forsetakjöri sínu eða meinta morðtilraun með eitri á andstæðingi Pútíns, Alexei Navalní. 

Rússar brugðust ókvæða við þeim ummælum Bidens að Pútín væri morðingi. „Biden hefur móðgað borgara þessa lands með þessum ummælum,“ skrifaði forseti fulltrúadeildar rússneska þingsins, Vyacheslav Volodin, á Telegram-stöð sína. Hann bætti því við að árás Bidens beindist að Rússlandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert