Þau tíðindi urðu á mánudaginn að í fyrsta skipti var ráðherra skipaður í ríkisstjórn Bandaríkjanna sem er af ættum frumbyggja landsins. Það er hin sextuga Deb Haaland sem hlýtur þann heiður og gegnir embætti innanríkisráðherra en rætur hennar liggja hjá Laguna Pueblo ættbálknum í Nýju-Mexíkó.
Áður hafði hún skráð sig í sögubækurnar þegar hún var önnur af tveimur fyrstu konunum af frumbyggjaættum sem tóku sæti á þingi fyrir þremur árum síðan. Sem innanríkisráðherra mun Haaland meðal annars hafa forræði yfir málefnum frumbyggja í ríkisstjórn Bidens Bandaríkjaforseta en einnig mikilvægum málefnum á borð við auðlindir og þjóðgarða.
„Skipan Haalands er til marks um stórt framfaraskref í að móta ríkisstjórn sem endurspeglar fjölbreytileika bandarísks samfélags því að frumbyggjar Bandaríkjanna hafa hingað til verið hunsaðir á æðsta stjórnstigi landsins og víðar,“ sagði Chuck Schumer, leiðtogi Demókrata á öldungadeild Bandaríkjaþings þegar greidd voru atkvæði um skipan Haalands. Atkvæðagreiðslu sem Demókratar sigruðu með 51 atkvæði gegn 40.
Ráðherraskipanin er mikill sigur fyrir frumbyggja Bandaríkjanna en leiðtogar 120 ættbálka í landinu höfðu skorað á Biden Bandaríkjaforseta að velja Haaland í embættið. Hún hefur meðal annars talað fyrir því að rödd innfæddra og frumbyggja um heim allan þurfi að öðlast meiri sess í umræðu tengdri umverfismálum og loftslagsbreytingum.
Persónuleg saga hennar hefur verið erfið en Haaland er einstæð móðir sem barðist á sínum yngri árum við alkahólisma og þurfti um skeið að reiða sig á matargjafir til að komast af.