Hvetur fólk til að mæta í bólusetningu

Heilbrigðisráðherra Bretlands, Matt Hancock, segir að bóluefni AstraZeneca við Covid-19 sé öruggt og hvetur fólk til þess að hlusta á þá sem fara með leyfisveitingar. Eins hvetur hann fólk til þess að láta bólusetja sig um leið og það fær tækifæri til.

Þrettán lönd, þar á meðal Ísland, hafa stöðvað notkun bóluefnisins tímabundið á meðan rannsókn stendur yfir á mögulegum aukaverkunum.

Lyfjaeftirlit Bretlands segir að ekkert bendi til þess að bóluefnið valdi blóðtappa líkt og rannsakað er.

Matt Hancock heilbrigðisráðherra Bretlands.
Matt Hancock heilbrigðisráðherra Bretlands. AFP

Lyfjastofnun Evrópu (EMA) birtir í dag niðurstöðu eigin rannsókna varðandi blóðtappa meðal fólks sem hefur verið bólusett. Í gær greindi stofnunin frá því að hún væri þess fullviss að kostir AstraZeneca bóluefnisins væru meiri en áhættan og ekkert benti til þess að tengsl væru á milli þess og blóðtappa. 

Búið er að bólusetja um 17 milljónir íbúa Evrópu og Bretlands með AstraZeneca-bóluefninu og innan við 40 tilvik blóðtappa hafa komið upp meðal þessa hóps segir framleiðandi bóluefnisins. Þetta séu mun færri blóðtappar heldur en búast mætti við en tölfræðilega séð er viðbúið að miðað við þennan fjölda hafi um 100 fengið blóðtappa. 

Hancock bendir á að lyfjastofnun Bretlands, EMA og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) telji að öryggt sé að nota bóluefnið. 

Þegar BBC spurði hvort fleiri hafi hafnað bólusetningu í kjölfar tímabundinnar stöðvunar á notkun bóluefnisins annars staðar sagði Hancock að á hverjum degi sé stór hópur bólusettur og mikill áhugi sé meðal fólks á að láta bólusetja sig. 

Lyfjayfirvöldum hafa borist nokkrar tilkynningar um myndun blóðtappa í kjölfar bólusetningar með bóluefninu COVID-19 Vaccine AstraZeneca. Í sumum tilfellunum reyndist magn blóðflagna einnig minnkað (blóðflagnafæð) sem er óvenjulegt. Mörg þúsund manns fá blóðtappa í Evrópu árlega af ýmsum ástæðum. Myndun blóðtappa eftir bólusetningu með bóluefni AstraZeneca virðist ekki meiri en gengur og gerist hjá almenningi í venjulegu árferði að því er segir á vef Lyfjastofnunar Íslands.

Lyfjastofnun Evrópu vinnur nú með lyfjafyrirtækinu AstraZeneca, sérfræðingum í blóðsjúkdómum og öðrum heilbrigðisyfirvöldum að því að skoða málið nánar. Breska lyfjastofnunin (MHRA) kemur að því samstarfi þar sem um 11 milljónir skammta hafa verið gefnir af bóluefninu í Bretlandi.

Við matið sem nú stendur yfir er sérstaklega horft til þess hvort bóluefnið kunni að hafa stuðlað að tilkynntum tilvikum eða hvort líklegt sé að aðrar ástæður liggi að baki. Sérfræðinefnd EMA um eftirlit með ávinningi og áhættu lyfja (PRAC) hefur boðað til sérstaks fundar í dag, fimmtudag, til að draga ályktanir út frá þeim gögnum sem borist hafa og til að leggja til aðgerðir ef matið gefur tilefni til þess. 

EMA er, miðað við fyrirliggjandi gögn, enn á þeirri skoðun að gagnsemi bóluefnisins sé meiri en hugsanleg áhætta af Covid-19-sýkingu. Sóttvarnalæknir, í samráði við Lyfjastofnun, hefur hins vegar gert þá varúðarráðstöfun að fresta notkun þess þar til öll gögn hafa verið gaumgæfilega metin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert