Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO segir sérfræðinga stofnunarinnar enn vera að fara yfir upplýsingar um bólusetningar með AstraZeneca.
Hlé hefur verið gert á notkun þess í þó nokkrum löndum Evrópu, þar á meðal hér á landi, af ótta við að það tengist tilfellum blóðtappa.
Stofnunin mælir með því að bólusetningar með bóluefni AstraZeneca haldi áfram.
Kostir bóluefnisins í baráttunni við Covid-19 séu meiri en möguleg áhætta af notkun þess og því eigi að halda áfram að nota það á meðan aukaverkanirnar eru rannsakaðar nánar.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sagði fyrr í dag að hann myndi þiggja bóluefni AstraZeneca.
Johnson, sem er 56 ára, er í næsta hópi þeirra sem boðin verður bólusetning í Bretlandi. Samkvæmt frétt AFP verður hann bólusettur með efninu frá AstraZeneca.