Brasilíumenn upplifa nú sögulegt hrun heilbrigðiskerfisins í landinu. Í 25 af 27 fylkjum landsins eru yfir 80% lausra rúma á Covid-deildum full og í fylkinu Rio Grande do Sul eru engin rúm laus. Síðasti sólarhringur var sá mannskæðasti af völdum veirunnar frá upphafi, en 2.841 lét lífið.
„Rannsóknir okkar benda til þess að þetta sé stærsta hrun heilbrigðiskerfisins í sögu Brasilíu,“ segir í rannsókn stofnunarinnar Fiocruz.
Marcelo Queiroga varð í dag fjórði maðurinn til að gegna embætti heilbrigðisráðherra frá því faraldurinn hófst. Hann var skipaður í embættið af Jair Bolsonaro, forseta landsins, sem hefur sætt gagnrýni fyrir að þykja ekki hafa tekið faraldurinn nægilega alvarlega.
Queiroga ræddi við fjölmiðla í Brasilíu í gær. Þar hvatti hann fólk enn til að bera grímu og þvo sér um hendur, en lýsti þó ekki yfir stuðningi við útgöngubann. Sagði hann að þótt nota mætti þau í „öfgakenndum tilvikum“ þá gætu þau ekki verið hluti af stefnu stjórnvalda.