Spánn, Þýskaland, Frakkland, Ítalía og Holland eru meðal þjóða sem ætla að hefja bólusetningar með bóluefni AstraZeneca að nýju eftir að Lyfjastofnun Evrópu (EMA) gaf út í dag að óhætt væri að nota efnið. Það verður ekki gert strax í Noregi eða Svíþjóð.
Ákvörðun um að hefja bólusetningar með efninu að nýju hér á landi hefur ekki verið tekin. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur átt samtöl við smitsjúkdómalækna á Norðurlöndunum um framhaldið.
Portúgal, Slóvenía og Búlgaría eru einnig meðal þjóða sem munu taka bóluefni AstraZeneca í notkun aftur.
Þá ætla yfirvöld í Litháen og Lettlandi að hefja bólusetningar með efninu aftur strax á morgun. Þetta gáfu heilbrigðisráðherrar ríkjanna út fyrr í kvöld.
Greint var úrskurði Lyfjastofnunar Evrópu á blaðamannafundi í dag en þar kom fram í máli Emer Cooke, forstjóra stofnunarinnar, að bóluefnið væri öruggt. Ávinningurinn af bólusetningum með bóluefninu væri meiri en áhættan. Það væri þó ekki hægt að útiloka tengsl milli blóðtappa og bóluefnis.
Í kjölfarið af blaðamannafundinum fóru fregnir að berast frá ríkjum Evrópu um það hvernig bólusetningum með efninu yrði hagað. Jean Castax, forsætisráðherra Frakklands, sagði að þar í landi yrði efnið tekið í notkun aftur fljótlega. Bætti hann því við að hann myndi sjálfur fá bóluefni AstraZeneca til að sýna fram á öryggi þess.
Heilbrigðisyfirvöld í öllum ríkjum Þýskalands ætla að byrja að bólusetja með efninu á morgun, sagði Jens Spahn, heilbrigðisráðherra Þýskalands. Hann lagði áherslu á að öllum yrði tilkynnt um mögulegar aukaverkanir áður.
Carolina Darias, heilbrigðisráðherra Spánar, sagðist gera ráð fyrir því að efnið yrði tekið aftur í notkun á miðvikudaginn í næstu viku.
„Bólusetningum með bóluefni AstraZeneca verður áfram frestað þangað til við höfum fulla yfirsýn,“ sagði Camila Stoltenberg, forstöðumaður Lýðheilsustofnunar Noregs, við blaðamenn í kvöld. Stofnunin ætlar að taka ákvörðun í lok næstu viku.
Í Svíþjóð ætla menn einnig að stíga varlega til jarðar. Anders Tegnell, sóttvarnalæknir Svíþjóðar, sagði að embætti hans ætlaði að skoða öll gögn frá Lyfjastofnun Evrópu vel og vandlega áður en ákvörðun yrði tekin. Ákvörðun væri væntanleg í næstu viku.