Lyfjastofnun Evrópu hefur úrskurðað að bóluefni AstraZeneca vegna Covid-19 sé öruggt og veiti mikla vernd gegn Covid-19. Þá segir stofnunin að ávinningurinn af bóluefni AstraZeneca sé meiri en hugsanleg áhætta.
Þetta kom fram í máli Emer Cooke, forstjóri Lyfjastofnunar Evrópu, á blaðamannafundi sem nú stendur yfir.
Bóluefnið er ekki tengt aukinni hættu á segareki eða blóðtöppum, að sögn Cooke. Hún tók þó fram að miðað við fyrirliggjandi gögn gæti stofnunin ekki útilokað tengsl á milli blóðtappa og bóluefnisins.
Cooke benti á að yfir 2.500 manns hafi týnt lífi vegna Covid-19 á einum degi í síðustu viku eingöngu og þar af leiðandi hafi rannsókn stofnunarinnar á bóluefni AstraZeneca hafi verið sett í hæsta forgang.
Cooke sagði að Lyfjastofnun Evrópu muni rannsaka bóluefnið áfram. Þá kallaði hún eftir því að ef fólk fyndi fyrir mögulegum aukaverkunum greindi það frá því. Hún ítrekaði að lokum þá afstöðu stofnunarinnar að bóluefnið væri góður valkostur til þess að vernda borgara heimsins gegn Covid-19.
Fréttin hefur verið uppfærð