„Það er alvarlegt mál að forsætisráðherra gerist brotlegur við sóttvarnareglur í þeim aðstæðum sem nú eru,“ segir Hans Fredrik Martinussen, prófessor í lögum við Háskólann í Bergen í Noregi, í samtali við ríkisútvarpið NRK.
Til umræðu er sextugsafmæli Ernu Solberg forsætisráðherra sem hún fagnaði með Sindre Finnes, eiginmanni sínum, tveimur systrum sínum og fleiri ættingjum og mökum þeirra í skíða- og útivistarparadísinni Geilo, austur af Bergen, í lok febrúar. Komst veislan í hámæli í dag þegar NRK fékk staðfest hjá starfsfólki veitingastaðar á svæðinu að hún hefði verið haldin.
Komu þar alls saman 13 manns á veitingastaðnum Hallingstuene á Geilo föstudaginn 25. febrúar, reyndar að undanskildu sjálfu afmælisbarninu. Forsætisráðherrann þurfti að leita í skyndi á Ullevål-sjúkrahúsið í Ósló vegna bráðra augnvandamála, akutt øyeproblemer eins og NRK segir frá því án þess að fara nánar út í þá sálma.
Daginn eftir kom Solberg til baka og kom þá allur hópurinn, 14 manns, saman og fékk sér sushi. Hámarksfjöldi fólks, sem heimilt var að koma saman, miðað við sóttvarnareglurnar í febrúar var tíu manns og afmælisveisla ráðherra því skýlaust brot á þeim.
„Við ætluðum út að borða saman á fötudeginum og stóðum í þeirri trú, að við gættum vel að sóttvörnum og fjarlægð á milli okkar,“ segir Solberg við NRK. „Svo sáum við eftir á að hyggja, eftir að NRK spurði mig hvort þetta teldist ekki samkoma [n. arrangement], að þetta var brot á reglunum. Ég verð bara að biðjast forláts á því.“
Martinussen prófessor segir um augljóst brot á 13. grein sóttvarnareglugerðarinnar að ræða og telur rétt að afleiðingar verði af háttseminni. „Ég vænti þess auðvitað að forsætisráðherra sæti sömu viðurlögum og aðrir sem brotlegir gerast og fái sekt. Nógu slæmt hefði það verið hefði hún brotið gegn tilmælum stjórnvalda, en hún gerist brotleg við samkomureglur sem refsiviðurlög liggja við,“ segir prófessor.
„Ég skil vel að fólk finni til reiði,“ sagði forsætisráðherra í þættinum Debatten á NRK í dag (fimmtudag). „Ég sem daglega stíg fram og ræði sóttvarnir við norsku þjóðina ætti að kunna betri skil á reglunum. Sannleikurinn er hins vegar sá að ég gaumgæfði reglurnar ekki nægilega, ég áttaði mig ekki á að þegar fjölskylda færi út og væru fleiri saman en tíu teldist það samkoma [n. arrangement]. Ég hef mér ekkert til málsbóta, ég biðst bara afsökunar,“ sagði ráðherra í Debatten.
Marius Knudsen, aðgerðastjóri hjá suðausturumdæmi lögreglunnar, sagði við NRK í kvöld (fimmtudag) að lögregla aðhefðist að minnsta kosti ekki neitt vegna brotsins núna í kvöld.
„Þetta er ekki bráðaútkall hjá okkur og við gerum ekkert í þessu núna. Eðlilegt er að við skoðum þetta og metum stöðuna á morgun, en það er ekkert svoleiðis að fara að gerast núna,“ sagði Knudsen.
Lagaprófessorinn telur hins vegar að lögregla eigi að aðhafast án tafar. „Ég reikna ekki með að norsk lögregla stingi augljósum brotum á sóttvarnareglum undir stól í öðrum tilfellum [...] Og nei, þetta eru ekki heiðarleg mistök,“ segir hann að lokum ósveigjanlegur um háttsemi ráðherra.