Frönsk heilbrigðisyfirvöld mæltu með því í dag að aðeins fólk sem er 55 ára og eldra verði bólusett með bóluefni AstraZeneca. Ástæðan fyrir því að miðað er við 55 ára og eldri er sú að þau tilvik sem voru til rannsóknar vegna mögulegra tengsla blóðtappa og bólusetningar með bóluefni AstraZeneca voru meðal fólks sem er yngra en 55 ára.
Frönsk yfirvöld stöðvuðu tímabundið bólusetningu með AstraZeneca-bóluefninu vegna tilkynninga um að fólk hafi fengið blóðtappa eftir bólusetningar.
Forsætisráðherra Frakklands, Jean Castex, verður bólusettur síðar í dag með bóluefni AztraZeneca en hann er 55 ára gamall. Ekki er langt síðan frönsk yfirvöld lögðu blessun sína yfir að þeir sem væru 65 ára og eldri fengju bóluefni AstraZeneca við bólusetningu.
Það var niðurstaða sérfræðinganefndar Lyfjastofnunar Evrópu að tengsl gætu verið milli notkunar bóluefnisins og mjög sjaldgæfra tilfella af blóðtappamyndun þar sem magn blóðflagna er líka minnkað og blæðingar kunna að fylgja. Þar á meðal eru sjaldgæf tilfelli blóðtappa í æðum þar sem blóð rennur frá heila (cerebral venous sinus thrombosis, CVST).
Um er að ræða sjaldgæf tilfelli. Þann 16. mars sl. höfðu um 20 milljónir einstaklinga verið bólusettar á EES-svæðinu og í Bretlandi. Á sama tíma hafði Lyfjastofnun Evrópu einungis fengið upplýsingar um sjö tilfelli blóðtappa í mörgum æðum samtímis (disseminated intravascular coagulation, DIC) og 18 tilfelli CVST. Ekki hefur verið sýnt fram á orsakasamhengi, en það er mögulegt og krefst frekari skoðunar.
Heildarfjöldi tilkynntra tilfella af blóðtappa í kjölfar bólusetningar var 469 en það eru færri tilfelli en búast má við hjá sams konar þýði í venjulegu árferði án bólusetningar. Út frá þeim upplýsingum getur PRAC ályktað að ekki sé aukin heildaráhætta á myndun blóðtappa í kjölfar bólusetningar með bóluefninu.
Sérfræðingar PRAC fóru í saumana á öllum tilkynntum tilfellum DIC og CVST en níu létust í kjölfar veikindanna. Í flestum tilfellum var um einstaklinga undir 55 ára að ræða og meirihlutinn var konur.
Það var því niðurstaða EMA að ávinningur af notkun bóluefnisins vægi þyngra en áhættan þrátt fyrir möguleg tengsl við tilfelli blóðtappa ásamt blóðflagnafæð sem tilkynnt hafa verið eftir bólusetningu.