Bara fyrir 55 ára og eldri

Frakkar ætla að bólusetja 55 ára og eldri með AstraZeneca.
Frakkar ætla að bólusetja 55 ára og eldri með AstraZeneca. AFP

Frönsk heil­brigðis­yf­ir­völd mæltu með því í dag að aðeins fólk sem er 55 ára og eldra verði bólu­sett með bólu­efni AstraZeneca. Ástæðan fyr­ir því að miðað er við 55 ára og eldri er sú að þau til­vik sem voru til rann­sókn­ar vegna mögu­legra tengsla blóðtappa og bólu­setn­ing­ar með bólu­efni AstraZeneca voru meðal fólks sem er yngra en 55 ára.

Frönsk yf­ir­völd stöðvuðu tíma­bundið bólu­setn­ingu með AstraZeneca-bólu­efn­inu vegna til­kynn­inga um að fólk hafi fengið blóðtappa eft­ir bólu­setn­ing­ar.

For­sæt­is­ráðherra Frakk­lands, Jean Ca­stex, verður bólu­sett­ur síðar í dag með bólu­efni AztraZeneca en hann er 55 ára gam­all. Ekki er langt síðan frönsk yf­ir­völd lögðu bless­un sína yfir að þeir sem væru 65 ára og eldri fengju bólu­efni AstraZeneca við bólu­setn­ingu.

Það var niðurstaða sér­fræðinga­nefnd­ar Lyfja­stofn­un­ar Evr­ópu að tengsl gætu verið milli notk­un­ar bólu­efn­is­ins og mjög sjald­gæfra til­fella af blóðtappa­mynd­un þar sem magn blóðflagna er líka minnkað og blæðing­ar kunna að fylgja. Þar á meðal eru sjald­gæf til­felli blóðtappa í æðum þar sem blóð renn­ur frá heila (cerebral venous sin­us throm­bos­is, CVST).

Um er að ræða sjald­gæf til­felli. Þann 16. mars sl. höfðu um 20 millj­ón­ir ein­stak­linga verið bólu­sett­ar á EES-svæðinu og í Bretlandi. Á sama tíma hafði Lyfja­stofn­un Evr­ópu ein­ung­is fengið upp­lýs­ing­ar um sjö til­felli blóðtappa í mörg­um æðum sam­tím­is (dis­sem­ina­ted intra­vascul­ar coagulati­on, DIC) og 18 til­felli CVST. Ekki hef­ur verið sýnt fram á or­saka­sam­hengi, en það er mögu­legt og krefst frek­ari skoðunar.

Heild­ar­fjöldi til­kynntra til­fella af blóðtappa í kjöl­far bólu­setn­ing­ar var 469 en það eru færri til­felli en bú­ast má við hjá sams kon­ar þýði í venju­legu ár­ferði án bólu­setn­ing­ar. Út frá þeim upp­lýs­ing­um get­ur PRAC ályktað að ekki sé auk­in heild­aráhætta á mynd­un blóðtappa í kjöl­far bólu­setn­ing­ar með bólu­efn­inu.

Sér­fræðing­ar PRAC fóru í saum­ana á öll­um til­kynnt­um til­fell­um DIC og CVST en níu lét­ust í kjöl­far veik­ind­anna. Í flest­um til­fell­um var um ein­stak­linga und­ir 55 ára að ræða og meiri­hlut­inn var kon­ur.

Það var því niðurstaða EMA að ávinn­ing­ur af notk­un bólu­efn­is­ins vægi þyngra en áhætt­an þrátt fyr­ir mögu­leg tengsl við til­felli blóðtappa ásamt blóðflagna­fæð sem til­kynnt hafa verið eft­ir bólu­setn­ingu.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert