Norska lögreglan mun rannsaka ásakanir um að Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, hafi brotið sóttvarnareglur þegar hún fagnaði sextugsafmæli sínu í síðasta mánuði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.
Norskir miðlar greindu frá því í gær að Solberg hefði verið við þrettánda mann í kvöldverðarboði í íbúð sem fjölskyldan hafði leigt í bænum Geilo 26. febrúar en á þeim tíma máttu ekki fleiri en tíu koma saman í Noregi.
Solberg hefur þegar beðist afsökunar á veislunni. Hún hafi ekki áttað sig á að reglur væru brotnar, en hefði átt að vita betur.
Norska ríkisútvarpið, NRK, greinir frá því að lögregla ætli að hefja rannsókn á grundvelli upplýsinga sem hafa komið fram í fjölmiðlum sem og yfirlýsingar Solberg sjálfrar.