Sóttvarnareglur hafa verið hertar til muna í Frakklandi og Póllandi vegna fjölgunar smita og útgöngubanni komið á að nýju í París og víðar. Margir íbúar Parísar reyndu að forða sér út úr borginni áður en nýjar reglur tóku gildi á miðnætti. Helsta ástæðan fyrir hertum reglum í Póllandi er fjölgun smita af bráðsmitandi afbrigði veirunnar sem fyrst greindist í Bretlandi en um 60% nýrra smita er af því afbrigði.
Í Frakklandi hafa hertar reglur áhrif á líf 21 milljónar landsmanna. Í Póllandi hefur verslunum öðrum en þeim sem selja nauðsynjavöru, hótelum, menningar- og íþróttamiðstöðum verið lokað í þrjár vikur. Þar í landi hafa dagleg Covid-19-smit ekki verið fleiri síðan í nóvember.
Eins fjölgar kórónuveirusmitum hratt í Þýskalandi og hefur Angela Merkel kanslari varað landsmenn við að þar verði reglur væntanlega hertar að nýju.
Tafir á bólusetningum í ríkjum Evrópusambandsins hafa ekki bætt ástandið en það má meðal annars rekja til tímabundinnar stöðvunar á notkun bóluefnis AstraZeneca vegna mögulegra aukaverkana og að lyfjafyrirtækin hafa ekki getað staðið við afhendingaráætlanir sínar.
Samkvæmt frétt BBC voru allar ferðir járnbrauta til svæða Frakklands þar sem reglur voru ekki hertar á miðnætti yfirfullar. Umferðaröngþveiti var á hraðbrautum fyrir utan París þar sem fjölmargir ákváðu að koma sér burt úr borginni til svæða, svo sem Bretagne og Lyon, þar sem reglur voru ekki hertar á miðnætti.
Nýjar reglur kveða á um að öllum fyrirtækjum sem ekki sinna nauðsynlegri þjónustu er lokað en skólar eru áfram opnir og hárgreiðslustofur svo lengi sem þær fylgja nauðsynlegum sóttvarnareglum að því er segir í tilkynningu. Heimilt verður að hreyfa sig utandyra innan 10 km radíuss frá heimili sínu og útgöngubann er í gildi að næturlagi.