Atli Steinn Guðmundsson skrifar frá Ósló
Lík síðasta fórnarlambs jarðfallsins í Gjerdrum í Noregi 30. desember, sem saknað var, fannst um klukkan 07:30 í morgun að norskum tíma. Frá þessu greinir lögreglan í austurumdæminu í fréttatilkynningu í morgun og segir þar að leitarmenn hafi fundið líkið í neðri hluta jarðvegarins sem fór af stað þegar jörðin gaf eftir skömmu fyrir áramót með þeim afleiðingum að tíu íbúar í húsum á hamfarasvæðinu létu lífið.
Aðstandendum hefur verið tilkynnt um fundinn, en hin látna er Rasa Lasinskiene og vinnur lögregla nú að því að ná jarðneskum leifum hennar upp úr jarðveginum.
Anders Østensen, bæjarstjóri í Gjerdrum, kveður fund Lasinskiene létti, með honum geti syrgjandi bæjarfélag lokað vissum kafla og haldið áfram með lífið. „Þótt hér sé um skelfilegan atburð að ræða er það mikill léttir að allir eru nú fundnir, hvort tveggja fyrir aðstandendur og aðra íbúa,“ sagði bæjarstjóri í morgun.
Rannsókn á tildrögum jarðfallsins hófst í janúar og mun standa mánuðum saman, en allar götur síðan hamfarirnar urðu hefur leit að líkum þeirra síðustu, sem saknað var, verið fram haldið og fundust tvö lík í febrúar.
„Fundurinn [í morgun] breytir ekki þeirri sáru staðreynd að við misstum tíu manneskjur sem eru ekki á meðal okkar lengur. Það er mikilvægt að þær hafi fundist svo hægt sé að halda útfarir og loka þessum kafla,“ sagði Østensen bæjarstjóri enn fremur.