Ríkisstjórn Danmerkur kynnti í gær langtímaáætlun um afléttingu samkomutakmarkana í landinu. Áætlunin byggist á samkomulagi allra flokka á danska þinginu, nema hægriflokksins Nýja Borgaraflokksins. Samkomulagið inniheldur jafnframt framlengingu á stuðningsaðgerðum til fólks og fyrirtækja út júní.
Næstu skref í afléttingu verða tekin 6. apríl, þriðjudag eftir páska, en þá mega börn í eldri bekkjum grunnskóla og framhaldsskóla snúa aftur í skólann aðra hverja viku. Sama gildir um háskólanema í miklu verklegu námi, en aðrir háskólanemar verða að láta sér nægja 20% mætingu.
Á sama tíma munu Danir komast í klippingu í fyrsta sinn frá því fyrir jól, geta fengið sér tattú og sótt aðra þjónustu sem krefst nándar milli starfsmanns og viðskiptavinar. Ekki hver sem er þó. Til þess að nýta þessa þjónustu þarf að framvísa sérstökum kórónupassa, sem innleiddur verður í formi snjallforrits.
Með honum þarf að sýna fram á að innan við þrír sólarhringar séu síðan viðkomandi fór í sýnatöku og fékk neikvæða niðurstöðu. Ákvæði um þennan kórónupassa varð til þess að Nýi Borgaraflokkurinn dró sig út úr samningaviðræðum í þinginu.
Verslanir í verslunarmiðstöðvum verða opnaðar viku síðar, 13. apríl. Verslunum er nú um stundir aðeins heimilt að halda opnu ef þær eru búnar sérinngangi.
Hafa sumar verslanir í verslunarmiðstöðvum því gripið til þess ráðs að breyta neyðarútgangi eða starfsmannainngangi sem vísar út á götu í inngang svo hægt sé að komast inn án þess að fara í gegnum verslunarmiðstöðina.
Þá mátti blaðamaður á dögunum alls ekki kaupa tölvu í raftækjaverslun í verslunarmiðstöð, einu búð fyrirtækisins sem átti hana á lager. Hins vegar mátti fara í aðra verslun fyrirtækisins, sem ekki er í verslunarmiðstöð, leggja inn pöntun og fara svo aftur í verslunina í verslunarmiðstöðinni til að sækja gripinn.
Frekari skref verða svo stigin í opnun landsins í maí þegar veitingastaðir, kaffihús, skemmtigarðar og fleiri lystisemdir verða aðgengilegar á ný.
Þegar búið verður að bólusetja viðkvæmustu hópa og alla yfir 50 ára aldri á að slaka enn frekar á takmörkunum þannig að þær gildi aðeins um næturlíf og mjög fjölmenna viðburði.