Það gæti tekið margar vikur að losa stærðarinnar flutningaskip sem þverar nú Súez-skurðinn í Egyptalandi, sem er ein mikilvægasta siglingaleið í heimi. Þetta segja talsmenn hollensks fyrirtækis sem sérhæfir sig í slíkum björgunaraðgerðum.
Hópur sérfræðinga frá Smit Salvage eru væntanlegir á staðinn í dag þar sem skipið, MV Ever Given, festi sig þegar sandstormur gekk yfir svæðið.
„Þetta er gríðarlega þungur hvalur á ströndinni, ef svo má komast að orði,“ sagðiPeterBerdowski, forstjóriBoskalis, sem er móðurfyrirtæki SmitSalvage, í samtali við hollenska fréttaþáttinnNieuwsuur í gærkvöldi.
„Ég vil helst ekki vera með neinar vangaveltur, en þetta gæti tekið marga daga eða vikur.“
Egypsk stjórnvöld hafa stöðvað siglingar í gegnum skurðinn þar sem japanskir eigendur flutningaskipsins hafa greint frá því að þeir eigi í afar miklum vandræðum með því að koma skipinu aftur á flot.
Berdowski segir að sérfræðiteymi þurfi að huga að mörgum atriðum við það hvernig best sé að losa skipið. „Við erum að skoða hversu mikil olía er um borð, hversu mikið vatn; þetta eru ansi flóknir útreikningar,“ bætti hann við.
Smit Salvege, sem Boskalis keypti árið 2010, hefur mikla reynslu af því að koma skipum í vanda til aðstoðar. Mörg málanna hafa ratað í heimsfréttirnar, m.a. ítalska farþegaskipið Costa Concordia steytti á skeri og lagðist á hliðina árið 2012. Einnig rússneski kjarnorkukafbáturinn Kúrsk sem sökk í Barentshafi árið 2000.
Í gær reyndu egypskir dráttarbátar að toga skipið á flot, en auk þess voru skurðgröfur notaðar til þess að losa jarðveg þar sem skipið strandaði.
Skipið, sem er 400 metra langt og 59 metra breitt, var á leiðinni til Rotterdam frá Kína þegar það lenti í sandstormi sem byrgði skipstjóra þess sýn. Strandaði skipið þannig að það þveraði skurðinn nánast, og opnuðu Egyptar því fyrir ýmsa hliðarskurði, sem ekki höfðu verið nýttir í áraraðir til þess að liðka fyrir skipaumferð.
Þrátt fyrir það óttast sérfræðingar í vöruflutningum að þeir muni nú tefjast um marga daga, þar sem skurðurinn er mikilvæg lífæð.