Aðkoma Frakka að þjóðarmorðinu í Rúanda viðurkennd

Franskir hermenn heilsa upp á Húta í júní 1994, á …
Franskir hermenn heilsa upp á Húta í júní 1994, á meðan þjóðarmorðinu stóð. AFP

Stjórnvöld í Rúanda fagna nýútkominni skýrslu hinnar frönsku Duclert-nefndar, þar sem ábyrgð Frakka á þjóðarmorðinu í Rúanda 1994 er lýst. Ábyrgð Frakka er sögð mikil en þeir eru ekki sagðir hafa tekið þátt í þjóðarmorðinu sjálfu.

„Við fögnum skýrslu Duclert-nefndarinnar. Hún er mikilvægt skref í átt að sameiginlegum skilningi á aðkomu Frakka að þjóðarmorðinu gegn Tutsi-þjóðflokknum,“ segir í tilkynningu stjórnvalda í Rúanda.

Í tilkynningunni segir einnig að von sé á skýrslu nefndar sem stjórnvöld í Rúanda settu á laggirnar. Sú skýrsla á að ríma vel við það sem fram kemur í skýrslu Duclert-nefndarinnar.

Öfgahópar innan þjóðarbrots Húta myrtu að minnsta kosti 800 þúsund Tútsa og friðarsinnaða Húta í þjóðarmorðinu í Rúanda. Í frétt BBC segir að hermenn franska hersins, sem höfðu hersetu í Rúanda í aðdraganda þjóðarmorðsins, hafi verið blindir fyrir því sem þá virtist vera í uppsiglingu.

Meðal þess sem áðurnefnd Duclert-nefnd nýtti sér við gerð skýrslunnar um málið eru bréf fyrrum forseta Frakklands, Francois Mitterand, og Juvénal Habyarima, fyrrum forseta Rúanda, sem var Húti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert