Ever Given loksins komið af stað

Dráttarbátar toguðu skipið í sameiningu í dag.
Dráttarbátar toguðu skipið í sameiningu í dag. AFP

Flutningaskipið Ever Given, sem setið hefur fast í Súez-skurðinum í tæpa viku, er nú komið á flot og tekið að sigla norður til Miðjarðarhafsins að nýju.

Skipið hefur tafið umferð annarra flutningaskipa og valdið miklu fjárhagstjóni víða um heim, en áætlað er að á hverjum degi fari verðmæti upp á 3 til 9,5 milljarða bandaríkjadala í gegnum skurðinn, eða sem nemur um 380 til 1.200 milljörðum íslenskra króna.

Áhafnir dráttarbáta fögnuðu árangrinum sem náðist rétt í þessu með því að þeyta þokulúðrana.

Alls bíða 425 skip þess að komast um siglingaleiðina, sitthvorumegin við skurðinn í Miðjarðarhafi og Rauðahafi.

Tífaldur gámafjöldi á við Brúarfoss

MV Ever Given siglir undir panömskum hentifána, en það tilheyrir skipafyrirtækinu Evergreen sem starfar frá eyjunni Taívan. Það er 400 metra langt, eða sem nemur rúmum fimm Hallgrímskirkjuturnum, og 59 metra breitt. Þá vegur skipið 224.000 tonn og ber um 20.000 gáma í hverri ferð.

Til samanburðar eru ný skip Eimskips, Brúarfoss og Dettifoss, 2.150 gámaeiningar að stærð, 180 metra löng og 31 metra breið. Þetta þýðir að risaskipið er um tvöfalt lengra og breiðara en þessi skip og ber nær tífaldan gámafjölda þeirra.

Í fyrstu var talið að sandstormur hefði byrgt skipstjóranum sýn og ýtt skipinu af leið. Sú skýring þótti sennileg, þar sem áður hefur verið varað við því að stormasamt geti verið við skurðinn, og um leið að lítið megi út af bera þegar risaskipi af þessu tagi sé stýrt í gegnum hann.

Vegna stærðar skipsins er viðbragðstíminn sem þarf til að rétta kúrsinn mjög skammur, og er þetta ekki í fyrsta sinn sem risaskip af þessu tagi strandar í skurðinum.

Osama Rabie, stjórnarformaður stofnunarinnar sem rekur skurðinn, sagði hins vegar á blaðamannafundi á laugardaginn, að talið væri mögulegt að mannleg mistök hefðu átt meiri þátt en veðurskilyrði þegar strandið varð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka