Flutningaskipið að losna

AFP

Flutningaskipið MV Ever Given, sem hefur stíflað Súez-skurðinn, eina fjölförnustu siglingaleið heims, fyrir allri umferð í báðar áttir í tæpa viku, er að losna. Búið er að rétta skipið af sem nemur 80% og vonir standa til að fljótlega verði hægt að hleypa umferð um skurðinn að nýju.

Eigandi skipsins segir að þrátt fyrir að búið sé að rétta skipið af sé það ekki enn komið á flot. MV Ever Given er engin smásmíði en það er lengra en fjórir knattspyrnuvellir til samans. Samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum er skipið nú komið 102 metra frá ströndinni en var aðeins fjóra metra frá henni áður.

Í grein eftir Stefán Gunnar Sveinsson í Morgunblaðinu í dag kemur fram að rúmlega 300 skip bíða beggja vegna skurðarins, og er farmurinn sem nú situr fastur metinn í milljörðum bandaríkjadala.

Frá því að framkvæmdum við Súez-skurðinn lauk árið 1869 hefur hann verið einn mikilvægasti hlekkurinn í sjóflutningum í heiminum. Um 12% af öllum viðskiptum heimsins fara í gegnum skurðinn, sem styttir siglingaleiðina milli Evrópu og Asíu um tæpa 9.000 kílómetra.

Þá styttir skurðurinn flutningatímann um tvær vikur eða svo, sem getur skipt miklu máli, til dæmis í flutningum á vörum sem geta runnið út eða eyðilagst. Því fara um 15 milljónir gáma á hverju ári um Súez-skurðinn, en það eru um 30% af öllum gámum sem notaðir eru í flutningum.

Umferð um skurðinn hefur stöðvast eða verið stöðvuð einungis fimm sinnum á þeim 152 árum sem hann hefur verið opinn, en skurðurinn var m.a. lokaður í kjölfar þjóðnýtingar hans árið 1956, sem aftur leiddi af sér Súez-deiluna, og svo var skurðurinn lokaður árin 1967-1975 í kjölfar sex daga stríðs Ísraels gegn Egyptalandi og fleiri Arabaríkjum. 

Ekki víst um orsakir strandsins

MV Ever Given siglir undir panömskum hentifána, en það tilheyrir skipafyrirtækinu Evergreen sem starfar frá eyjunni Taívan. Það er 400 metra langt, eða sem nemur rúmum fimm Hallgrímskirkjuturnum, og 59 metra breitt. Þá vegur skipið 224.000 tonn og ber um 20.000 gáma í hverri ferð. Til samanburðar eru ný skip Eimskips, Brúarfoss og Dettifoss, 2.150 gámaeiningar að stærð, 180 metra löng og 31 metra breið. Þetta þýðir að risaskipið er um tvöfalt lengra og breiðara en þessi skip og ber nær tífaldan gámafjölda þeirra.

Í fyrstu var talið að sandstormur hefði byrgt skipstjóranum sýn og ýtt skipinu af leið. Sú skýring þótti sennileg, þar sem áður hefur verið varað við því að stormasamt geti verið við skurðinn, og um leið að lítið megi út af bera þegar risaskipi af þessu tagi sé stýrt í gegnum hann.

Vegna stærðar skipsins er viðbragðstíminn sem þarf til að rétta kúrsinn mjög skammur, og er þetta ekki í fyrsta sinn sem risaskip af þessu tagi strandar í skurðinum.

Osama Rabie, stjórnarformaður stofnunarinnar sem rekur skurðinn, sagði hins vegar á blaðamannafundi á laugardaginn, að talið væri mögulegt að mannleg mistök hefðu átt meiri þátt en veðurskilyrði þegar strandið varð. Þá væri stefni skipsins farið að losna og skrúfa þess virkaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert