Meint fórnarlömb Maxwell orðin fjögur

Samsett mynd af Ghislaine Maxwell og Jeffrey Epstein.
Samsett mynd af Ghislaine Maxwell og Jeffrey Epstein. AFP

Tvær nýjar ákærur fyrir meðal annars mansal ólögráða barns hafa verið lagðar fram gegn Ghislaine Maxwell. Með nýju ákærunum verða meint fórnarlömb Maxwell orðin fjögur. Þetta kemur fram á vef BBC.

Maxwell er fyrrverandi kærasta dæmda barnaníðingsins, Jeffrey Epstein, og er hún nú ákærð fyrir að hafa ráðið stúlku undir lögaldri til að stunda kynlíf með Epstein á heimili hans í Palm Beach í Flórída. Epstein framdi sjálfsvíg í fangelsi árið 2019.

Maxwell er í fangelsi í New York og bíður réttarhalda sem áætlað er að fari fram í júlí. Hún hefur reynt að fá sig lausa úr fangelsinu gegn tryggingu.

Fyrir daginn í dag höfðu sex ákærur verið lagðar fram gegn Maxwell: fjórar tengjast árunum 1994 til 1997, en saksóknarar segja að þá hafi hún hjálpað Epstein að vinna traust stúlkna, allt niður í 14 ára aldur, með það fyrir augum að misnota þær (e. groom). Hinar tvær ákærurnar eru ásakanir um meinsæri sem átti sér stað árið 2016.

Verði hún fundin sek um fyrstu sex ákærurnar, sem hún neitar, á hún yfir höfði sér allt að 35 ára fangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert