Darnella Frazier, táningurinn sem tók upp myndskeið af hinstu stundum Georges Floyd, sagði í vitnisburði sínum í dag að hún hefði átt margar andvökunætur síðastliðið ár, þar sem hún hafi grátbeðið Floyd afsökunar á að hafa ekki gert meira til að bjarga lífi hans. „Ég á svartan föður, ég á svartan bróður. Þetta hefðu getað verið þeir,“ sagði Frazier í vitnisburði sínum.
„En á sama tíma snýst það ekki um hvað ég hefði átt að gera, heldur hvað hann átti að gera,“ sagði Frazier og átti þar við Derek Chauvin, lögregluþjóninn fyrrverandi, sem nú situr á sakamannabekk vegna málsins.
Nokkur vitni að atvikinu lýstu því í réttarhöldunum yfir Chauvin í dag, en hann hefur verið ákærður fyrir hvort tveggja morð og manndráp af gáleysi. Myndskeiðið sem Frazier tók upp sýnir þegar Chauvin setti hné sitt á háls Floyds og hélt því þar í níu og hálfa mínútu, þrátt fyrir að Floyd kvartaði undan andnauð.
Chauvin var í kjölfarið rekinn úr lögreglunni, en málið varð kveikjan að miklum mótmælum síðasta sumar víða um heiminn.
Frazier sagði jafnframt að Floyd hefði verið hræddur og grátbeðið lögreglumennina sem þarna voru um að þyrma lífi sínu. „Þetta var ekki rétt. Hann þjáðist. Hann var sárþjáður,“ sagði Frazier. „Ég vissi að þetta væri rangt. Við vissum það öll.“