Takmarka notkun AstraZeneca

Bóluefni AstraZeneca.
Bóluefni AstraZeneca. AFP

Þýsk yfirvöld ákváðu í dag að bjóða aðeins íbúum 60 ára og eldri upp á bóluefni AstraZeneca. Ákvörðunin kemur í kjölfar tilfella blóðtappa hjá yngra fólki sem fengið hafði bóluefnið. 

Þeir sem ekki hafa náð 60 ára aldri geta þó valið að vera bólusettir með bóluefni AstraZeneca að undangengnu viðtali við lækni. 

31 tilfelli heilaáfalls vegna blóðtappa í heila hefur komið upp hjá fólki sem fengið hefur bóluefni AstraZeneca í Þýskalandi. Níu hafa látist vegna heilaáfalls eftir bólusetningu. Viðkomandi hafa verið á aldrinum 20 til 63 ára, en talið er að hætta á blóðtappa sé mun minni hjá þeim sem eru eldri en 60 ára. 

Yfirvöld í Berlín og München höfðu þegar hætt notkun AstraZeneca hjá fólki yngri en 60 ára áður en alríkisyfirvöld ákváðu að fara sömu leið. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert