„Hann var látinn“

Veggjalistaverk af Floyd.
Veggjalistaverk af Floyd. AFP

Réttarhöld yfir Derek Chauven, fyrrverandi lögregluþjóni í Minneapolis sem var ákærður fyrir morðið á George Floyd, héldu áfram á fimmtudag. 

Réttarhöldin hófust á mánudag, en Chauvin var ákærður fyr­ir hvort tveggja morð og mann­dráp af gá­leysi. Cau­vin kraup á hálsi Floyds í níu og hálfa mín­útu, þrátt fyr­ir að Floyd kvartaði ítrekað und­an andnauð. 

Chau­vin var í kjöl­farið rek­inn úr lög­regl­unni, en málið varð kveikj­an að mikl­um mót­mæl­um síðasta sum­ar víða um heim­inn. 

Saksóknarar hafa við meðferð málsins reynt að sannfæra kviðdóm um að Floyd hafi látist vegna athæfis Chauvins en verjendur hans hafa reynt að sýna fram á að Floyd hafi látist vegna neyslu ólöglegra eiturlyfja og undirliggjandi sjúkdóma. 

Sjúkraliði sem bar vitni í dag sagði að Floyd, sem var 46 ára, hefði verið látinn þegar sjúkrabíll kom á vettvang. 

„Þegar ég kom á staðinn var hann látinn og ég skildi hann eftir á sjúkrahúsi og hann var þá enn með hjartaslag,“ sagði sjúkraliðinn Derek Smith. Hann segir að Chauvin hafi enn kropið á Floyd þegar hann kom á svæðið ásamt samstarfsmanni sínum Seth Bravinder í sjúkrabíl. 

Smith segist um leið hafa kannað hvort hann fyndi hjartslátt í slagæð Floyd. „Ég fann ekkert. Ég hélt að hann væri dáinn,“ sagði Smith. Hann og Bravinder hafi flutt Floyd í sjúkrabíl og reynt endurlífgun sem ekki bar árangur. 

„Hann var manneskja og ég var að reyna að gefa honum annað tækifæri til að lifa,“ sagði Smith.

Við urðum háð 

Courtney Ross, kærasta Floyds til þriggja ára, bar einnig vitni í dag. Hún var spurð ítarlega út í neyslu hennar og Floyds á ýmsum lyfjum. 

Ross, sem er 45 ára tveggja barna móðir sem starfar á kaffihúsi, sagði að þau Floyd hefðu verið par frá því í ágúst 2017. Hún grét þegar hún rifjaði upp daginn sem þau hittust fyrst, en það var í skýli fyrir heimilislausa þar sem Floyd starfaði sem öryggisvörður. Ross var þangað komin til að heimsækja föður annars sonar síns. Floyd sá að Ross lá mikið á hjarta og spurði hana hvort hann mætti biðja fyrir henni. 

Ross viðurkenndi að hún og Floyd hefðu bæði átt við ópíóíðalyfjafíkn að stríða. 

„Við vorum bæði að eiga við þráláta verki. Ég í hálsinum og hann í bakinu. Við urðum háð og reyndum virkilega að komast út úr þeirri fíkn,“ sagði Ross. Hún sagði að þau hefðu bæði fengið verkjalyf frá læknum en stundum keypt lyf á svörtum markaði. Þá sagði Ross að Floyd hefði verið lagður inn á sjúkrahús í mars 2020 vegna ofskömmtunar. Síðan þá hefði Floyd ekki neytt verkjalyfja að sögn Ross.

Chauvin, sem hafði starfað sem lögreglumaður í 19 ár, á yfir höfði sér allt að 40 ára fangelsi verði hann fundinn sekur. Þrír lög­reglu­menn til viðbót­ar, Tou Thao, J Al­ex­and­er Keung og Thom­as Lane, verða leidd­ir fyr­ir dóm vegna morðsins síðar á ár­inu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert