Norska dagblaðið Adresseavisen greindi frá því að fólksbifreið konu nokkurrar í Þrándheimi, sem auk þess var með ungabarn meðferðis, hefði verið sneidd í tvennt við hraðamælingar lögreglu sem nýlega hafði tekið upp nýja tækni við hraðamælingar, mælingu með leysigeislum. Eitthvað hefði tæknin verið að stríða laganna vörðum sem greinilega hefðu ekki lesið leiðbeiningarnar til hins ýtrasta.
Frásögnina birti dagblaðið árið 1995, í blaði dagsins 1. apríl. Nema hvað? Hér var á ferðinni aprílgabb og þótt enginn væri látinn hlaupa apríl, fyrir utan ef til vill dauðskelkaða ökumenn í Þrándheimi sem þyrðu ekki fyrir sitt litla líf út að aka, var býsna mikið lagt í gabbið.
Ritstjórnin útvegaði sér bíldruslu sem sneidd var í tvennt eftir endilöngu með demantskurðaráhöldum, réð konu í hlutverk skelfingu lostins ökumannsins og birti uppspunna frásögn hennar af því þegar hún taldi sig vera að lifa sitt síðasta augnablik. Lögreglan í Þrándheimi var að sjálfsögðu með í gabbinu og útkoman varð hin trúverðugasta þótt viðbrögðin hafi ekki verið eins mælanleg og nú, þegar lýðnetið er helsti vettvangur fréttaflutnings.
Seinna ljóstruðu blaðamenn Adresseavisen því upp, að ritstjórinn hefði lagt slíkan metnað í aprílgöbb miðilsins á tíunda áratugnum, að koníaksflaska hefði verið í verðlaun til handa þeim blaðamanni sem ætti bestu gabbhugmyndina. Vissulega driffjöður sem íslenskir ritstjórar gætu tekið til gagngerrar íhugunar.
Sama dagblað átti einnig annálað aprílgabb árið 2000 sem var svo trúverðugt að rússneskur fjölmiðill sló því upp sem heilögum sannleik. Greindi Adresseavisen þá frá því að rússnesk vöruflutningaflugvél, hlaðin laxi, hefði nauðlent á E6-brautinni við Malvik, 18 kílómetra austur af Þrándheimi, og birti samsetta mynd af 155 tonna þungri rússneskri Iljusjin-vél á malbikinu á E6 sem ólíklegt er að hefði þolað þungann af slíkri nauðlendingu.
Fylgdi það sögunni að vegfarendur gætu rennt við á vettvangi nauðlendingarinnar og fengið gefins lax og flugvélabensín að vild. Ekki fór þó sögum af því hvort einhverjir mættu á staðinn með þetta í huga en rússneska dagblaðið Novyje Izvestija fékk hins vegar veður af „nauðlendingunni“ og birti frétt af atvikinu.
Aftenposten birti þau tíðindi 1. apríl 1950, að flöskur hefðu gengið til þurrðar í átöppunardeild norsku áfengisútsölunnar Vinmonopolet á Hasle í Ósló. Svo fyrirbyggja mætti að áfengi skemmdist hjá versluninni við að komast ekki í réttar umbúðir gætu Óslóarbúar komið í átöppunina með eigin ílát og fengið þau fyllt af guðaveigum gegn mjög vægu gjaldi.
Þrátt fyrir tiltölulega augljósan aprílgabbsblæ er tilhneiging mannskepnunnar sterk til að falla fyrir tilboðum um ókeypis varning. Bergens Tidende greindi frá því 1. apríl 1987, að Vinmonopolet þar í bænum hygðist gefa 10.000 lítra af smygluðu brennivíni sem gert hefði verið upptækt. Og viti menn, þegar verslunin opnaði stóðu 200 þyrstir Björgvinjarbúar í röð við dyrnar með krúsir, koppa og kyrnur til að þiggja dropann.
Í Tromsø sagði staðarblaðið Nordlys frá því 1. apríl 2011, að reiknað væri með hreinni vargöld þar í bænum þegar Ólympíumótið í skák færi þar fram árið 2014. Gert væri ráð fyrir stórum hópum skákbullna (n. sjakk-hooligans) til bæjarins, sem í raun hefðu engan áhuga á skák, en fylgdu stórmótum í greininni með það fyrir augum að stofna til slagsmála og vinna skemmdarverk.
Vitnaði blaðið í talsmenn Alþjóðaskáksambandsins sem krefðust gríðarlegrar öryggisgæslu kringum mótið og var gert ráð fyrir að verðmiðinn þar yrði um fimm milljónir norskra króna sem íbúar þessa höfuðstaðar Norður-Noregs yrðu að standa undir með samskotum. Eins var rætt við formann norska skáksambandsins sem kvaðst með böggum hildar, stuðningsmannahópar einstakra skákmanna, sem kepptu á alþjóðlegum mótum, mættu gjarnan til að styðja sinn keppanda, en það væru þeir þekktir fyrir að gera með handalögmálum einum og skildu jafnan eftir sig sviðna jörð.
Eðlilega hafa sum norsk aprílgöbb fallið í grýttan jarðveg. Gabb Drammens Tidende árið 2008 var líklega vel meint en vakti mikinn úlfaþyt í bænum. Formaður innflytjendaráðs Drammen tók þátt í gabbinu og kom fram í frétt þar. Mæltist hann þar til þess að bæjarstjórn bannaði alla áfengissölu öldurhúsa við götu nokkra í bænum á föstudögum til að föstudagsbænir múslima yrðu ekki truflaðar með drykkjulátum.
Fylltust athugasemdakerfi vefútgáfu miðilsins þegar af hatursorðræðu og skítkasti í garð múslima sem líkast til voru ekki hafðir með í ráðum við undirbúning gabbsins. Ritstjórn Drammens Tidende hélt því þó fram að gabbið hefði heppnast fullkomlega – norska ríkisútvarpið NRK hljóp nefnilega apríl og birti frétt af áskorun formanns innflytjendaráðs um áfengisbannið í kvöldfréttum sínum.
Árið 2013 sagði Telemarksavisa frá því 1. apríl, að ungstirnið Justin Bieber hefði ákveðið, í tengslum við tónleikaheimsókn sína til Óslóar síðar í mánuðinum, að bæta við aukatónleikum í Skagerak Arena í Skien, höfuðvígi dagblaðsins. Þeir sem fyrstir yrðu til að sýna sig á ritstjórn blaðsins þá um morguninn fengju ókeypis miða. Gabbið hleypti verulega illu blóði í „beliebers“, eins og Bieber sjálfur kallar áhangendur sína.
Vafalítið er þó óvinsælasta aprílgabb í sögu Noregs frásögn dagblaðsins Budstikka í Raumsdal 1. apríl 1938 af væntanlegri heimsókn Adolfs Hitlers til Molde sem þar er um slóðir. Vitnaði blaðið í sjálfan leiðtoga Nationalsozialistische Deutsche Arbeiterpartei, eins og flokkur Hitlers hét, og hafði þetta eftir: „Það er nú einu sinni minn helsti styrkleiki að vera þar sem enginn býst við mér og gera það sem enginn trúir mér til.“
Hitler kvaðst svo samkvæmt blaðinu ætla að halda frá Molde til Ålesund, en hann gæti róað lesendur með því að ekkert yrði af neinu stríði...svo lengi sem önnur ríki sýndu skynsemi og færu að vilja hans.
Gabbið varð síðar fleygt fyrir þá kaldhæðni sem örlögin skópu því þar sem þýskar sprengjuflugvélar lögðu Molde í rúst við innrás nasista í Noreg í apríl 1940, tveimur árum síðar.