Valdið sem fyrrverandi lögreglumaðurinn Derek Chauvin beitti George Floyd, með þeim afleiðingum að Floyd lét lífið, var „með öllu ónauðsynlegt“ að mati Richards Zimmermans, yfirmanns í lögregludeildinni í Minneapolis og fyrrverandi samstarfsmanns Chauvins.
Þetta kom fram í vitnaleiðslum í dag en réttarhöldin yfir Chauvin hófust á mánudaginn og standa enn yfir. Chauvin er ákærður fyrir hvort tveggja morð og manndráp af gáleysi með því að hafa kropið á hálsi Floyds í níu og hálfa mínútu þráttt fyrir að Floyd hafi ítrekað kvartað undan andnauð.
Zimmerman sagði saksóknaranum Matthew Frank að hann hefði farið yfir myndbandsupptökur úr búkmyndavélum og frá vitnum. Hann sagðist ekki hafa séð neitt sem Chauvin og félagar hans hefðu getað túlkað sem ógn og því hefði valdbeitingin verið algerlega ónauðsynleg.
Saksóknarar eru að reyna sýna fram á að Floyd hafi látist vegna athæfis Chauvins en verjendur hans halda því fram að Floyd hafi látist vegna neyslu ólöglegra efna og undirliggjandi sjúkdóma.
Sjúkraliðinn Derek Smith bar vitni í gær og sagði að Chauvin hefði enn haft hnéð á hálsi Floyds þegar hann kom á vettvang og þá hefði Floyd verið látinn.
Zimmerman var einnig spurður hvort lögreglumönnum væri kennt að krjúpa á hálsi þeirra sem verið væri að handtaka. Zimmerman neitaði því og sagði að eftir að handjárn væru komin á hinn grunaða væri heilsa hans og öryggi á ábyrgð lögreglumannsins.